In Ovum Narfa
In Ovum er heiti á akrílverki Narfa Storm Sólrúnar sem var unnið í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2023 og er að einhverju leyti vísan til fígúru úr heimi Dungeons and Dragons spilsins sem Narfi segist hafa spilað undanfarin ár. „Ég hef lengi haft mikla ánægju af fantasíum eins og eru í Dungeons and Dragons og ég þekki fólk á öllum aldri sem hefur sama áhugamál,“ segir Narfi.
Narfi er úr Þorpinu á Akureyri og lauk grunnskólanámi í Giljaskóla árið 2016. Þá lá leiðin á almenna braut í VMA, síðan listnáms- og hönnunarbraut, þá tók við hlé frá námi, aftur fór Narfi í VMA og þá í grunndeild matvæla og að henni lokinni aftur á listnáms og hönnunarbraut. „Ég elska að skapa, að geta gert eitthvað með höndunum. Það eru listagen í móðurættinni og því kom ekki alveg á óvart að ég valdi þessa leið. Mér fannst líka gaman í grunndeild matvæla enda hef ég ánægju af eldamennsku en hins vegar hafði ég hvorki löngun til þess að starfa í matreiðslu eða framreiðslu. Þess vegna hélt ég ekki áfram á þeirri braut. Listnámið höfðar til mín, ekki síst málun og skúlptúrar og kennararnir á brautinni eru frábærir.“
En hver eru áhugamálin? Svarið er einfalt: að spila tölvuleiki og gera hina og þessa skapandi hluti.
Narfi segist ekki vera týpan sem geri áætlanir mörg ár fram í tímann, betra sé að taka einn dag í einu. Ef til vill megi segja að ekki sé ástæða sé til að gera langtímaplön í ófriðsamlegum heimi dagsins í dag.