Heiðruð fyrir góðan árangur í stærðfræði
Fjórir nemendur í VMA hafa í vetur tekið þátt í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema og staðið sig öll með mikilli prýði. Þetta eru Dagbjört Jóna Tryggvadóttir, Orri Sigurbjörn Þorláksson, Theodóra Tinna Reykjalín Kristínardóttir og Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson. Öll tóku þau þátt í forkeppninni 3. október 2023. Sigurbjörn Orri og Víkingur Þorri unnu sér þátttökurétt í úrslitunum sem fram fóru í Háskólanum í Reykjavík í febrúar sl. Víkingur Þorri varð í fimmta sæti á efra stigi en Sigurbjörn Orri í þrettánda sæti á neðra stigi.
Sem sagt afar góður árangur þessara fjögurra nemenda í stærðfræðinni í vetur og voru þeir heiðraðir í löngufrímínútunum í dag af þessu tilefni.
Veturinn er þó ekki alveg búinn í stærðfræðikeppnum fyrir Víking Þorra því hann mun taka þátt á Norðurlandamótinu í stærðfræði sem verður 9. apríl nk. Mótið verður rafrænt og því situr Víkingur Þorri yfir verkefnunum í VMA.