Gruflað í gervigreind
Nokkrir kennarar í VMA munu á næstu vikum taka þátt í Erasmus evrópuverkefni um gervigreind, sem felst í því að leggja ákveðin verkefni fyrir nemendur. Spurningin sem velt er upp í þessu sambandi er sú hvort gervigreindartæknin geti metið augnhreyfingar nemenda þegar þeir fara í gegnum ákveðið námsefni og lagt þannig mat á hversu áhugavert það er. Heldur það athygli nemenda eða ekki?
Liður í þessu stóra og viðamikla evrópuverkefni, sem hefur verið í gangi í nokkur misseri, er gervigreindarkennsluvefur á íslensku – Skákgreind – með námsefni og gagnvirkum spurningum. Ætlunin er að leggja þetta námsefni fyrir nokkra kennsluhópa í VMA og reynslan af því verði nýtt til þess að safna upplýsingum í sarpinn. Þetta var fyrst reynt í MTR á síðustu haustönn og nú bætast fleiri framhaldskólar við hér á landi, m.a. VMA. Urður María Sigurðardóttir kennari segir við það miðað að þessu tilraunaverkefni ljúki í VMA fyrir lok apríl.
Urður segir áhugavert og mikilvægt að taka þátt í þessu, bæði fyrir kennara og nemendur, því með þessu gefist gott tækifæri til þess að nota gervigreindina og auka skilning á henni. Líta megi svo á að gervigreindin sé þrepið yfir í miklar samfélagsbreytingar, einskonar iðnbylting 21. aldarinnar, hvort sem okkur líki það betur eða verr. Stóra málið sé hvernig unnt sé að nýta gervigreindina til þess að efla námið og auka áhuga nemenda á því. Í því geti gervigreindin verið öflugt tæki.
En hvað er gervigreind? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Vísindavefur Háskóla Íslands segir að í sem stystu máli sé gervigreind að tölva geti skynjað og skilið umhverfi sitt og síðan tekið eigin ákvarðanir á svipaðan hátt og manneskjur. Og þá er í framhaldinu litið til þess að grunnrannsóknum á gervigreind megi skipta í tvo hluta – annars vegar hvernig sé best að geyma þekkingu i tölvum þannig að þær geti notað þessa þekkingu til að leysa verkefni, taka ákvarðanir og bæta við þekkinguna. Í annan stað hvernig tölva getur skynjað umhverfi sitt, þar með talið mannfólk, og bætt þannig við þekkingu sina.
Þetta eru auðvitað almennar og víðtækar skilgreiningar á gergvigreind sem hafa stöðugt tekið breytingum og þær eiga eftir að taka miklum breytingum. Mannfólkið hefur ekki undan að fylgjast með þróuninni og tileinka sér hana.
Við vorum áþreifanlega minnt á þennan gervigreindarheim þegar fram kom á sjónarsviðið eins og eldsprengja fyrir hálfu öðru ári forritið ChatGPT – þar sem GPT stendur fyrir Generating Pre-trained Transformer. Fyrirtækið að baki þessu forriti heitir OpenAI og var stofnað 2015 af millljarðamæringnum Elon Musk en einnig komu að fyrirtækinu Ilya Sutskever, Wojciech Zaremba, Greg Brochman and Sam Altman. En þó svo að ChatGPT hafi verið mest í umræðunni um gervigreind er það vitaskuld svo að allir stóru tölvurisar heimsins, hvaða nafni sem þeir nefnast, eru á fullu í þessari þróun og nú þegar snertir hún daglegt líf okkar allra án þess kannski að við gerum okkur svo auðveldlega grein fyrir því.