Ég kann ekki að hafa ekkert að gera
„Mér finnst þetta alveg frábær upplifun. Það er mjög gaman að vinna með ungu fólki og ég þrífst á mannlegum samskiptum. Þegar ég var yngri voru mér kenndir ótal hlutir og mér finnst ég þurfa að endurgjalda það. Mitt verkefni er að miðla því efni sem fyrir okkur kennarana er lagt auk þeirrar vitneskju sem ég hef aflað mér í gegnum tíðina,“ segir Ásgeir Már Andrésson, kennari vélstjórnargreina í VMA. Hann hóf kennslu í VMA sl. haust og sér ekki eftir því.
„Sem kennari er þetta mín fyrsta reynsla en ég hafði haldið námskeið, verið gestafyrirlesari og verið leiðbeinandi í verkefnum í Háskólanum í Reykjavík. Og síðan hef ég auðvitað sagt til fólki sem ég hef verið að vinna með í gegnum tíðina. Ég vil halda því fram að við séum öll kennarar, á mismunandi hátt,“ segir Ásgeir.
En hver er Ásgeir Már Andrésson? Hann er sveitastrákur úr Skagafirði, ólst upp í foreldrahúsum á bænum Tungu skammt frá Sauðárkróki. Fjórtán ára gamall spurði faðir Ásgeirs hann þeirrar spurningar hvað hann ætlaði að leggja fyrir sig þegar hann yrði stór. Svarið var á þá leið að hann gæti vel hugsað sér að verða bóndi. „Þá lagði faðir minn hönd sína ákveðið á öxlina á mér og sagði sem svo að hann væri nú ekkert að fara að hætta í búskapnum en ef ég hefði áhuga á því að gerast bóndi skyldi ég læra eitthvað sem myndi síðan nýtast mér í búskapnum. Það varð því úr að ég fór í rafvirkjun í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Ég hafði þegar þarna var komið sögu unnið í upp- og útskipun á Króknum og var einnig fenginn til þess að vera vaktmaður um borð í skipunum á meðan þau voru í höfn. Þegar lítið var að gera á næturvöktunum fór ég að lesa véladagbækur skipanna og fékk smám saman ómældan áhuga á vélum og hvernig þær væru uppbyggðar. Ég spurði vélstjórana spjörunum úr og lærði að keyra frysti- og ljósavélar í skipunum. Allt varð þetta til þess að ég fékk um það fyrirspurnir frá útgerðinni á Króknum hvort ég gæti hugsað mér að læra vélvirkjun og starfa sem vélstjóri. Það varð úr. Ég hætti námi í rafvirkjuninni á Króknum eftir hálft annað ár og fór suður í Vélskóla Íslands. Þar var ég í fjögur ár, með hléum. Inn á milli fór ég erlendis til þess að ná mér í viðbótarþekkingu. Það má eiginlega segja að ég hafi breyst í pínulítinn Bjarnfreðarson! Ég lauk ekki við Vélskólann endanlega fyrr en 2017 en hafði fimmtán árum fyrr útskrifast einnig sem vélfræðingur frá Bergen í Noregi með vökvatækni sem aðalsvið.
Ég starfaði lengi í Noregi og á meginlandi Evrópu í hinum ýmsu verkefnum. Einnig var ég á sama tíma í atvinnurekstri á Íslandi. Á þessum tíma lærði ég líka margmiðlunarhönnun í Árósum í Danmörku og stofnaði með útskriftarfélögum mínum fyrirtæki í Þýskalandi og við vorum í samstarfi við Google um tíma. Annað slagið fór ég heim til að stunda nám nám í umhverfis- og orkufræði við Háskólann á Akureyri og stofnaði lífdíselframleiðslufyrirtæki og átti Íslenska líforkufélagið. Árið 2007, korteri fyrir hrun, seldi ég verksmiðjueininguna mína til Evrópu.
Í kjölfarið fer ég austur og er að vinna við álver Fjarðaáls þegar það var að fara í gang, þar var ég í tæp tvö ár. Út frá því hóf ég störf hjá Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar í Hafnarfirði. Hjá því fyrirtæki starfaði ég til 2015 þegar ég flutti norður til búsetu á Hjalteyri. Þá tók ég ýmis verkefni að mér, var m.a. umhverfis- og orkuráðgjafi og hef verið með ýmis verkefni á því sviði síðan. En ég gerði líka ýmislegt annað skemmtilegt. Sumarið 2015 keyrði ég mjókurbíl til þess að kynnast fólkinu í Hörgársveit þar sem ég hafði ákveðið að setja mig niður og fór síðan í byggingariðnaðinn, m.a. smíðaði ég innréttingar fyrir skip og einnig vann ég hjá byggingarfyrirtækinu ÁK-smíði. Úr varð að ég fór í nám í húsgagnasmíði og húsasmíði. Námið tók ég á Króknum í lotunámi en lauk við samninginn í húsasmíði hjá ÁK-smíði. Ég var síðan um tíma sem undirverktaki við innréttingasmíði í Slippnum þar til árið 2019 er Samherji býður mér vinnu og þá var ég vélstjóri á hinum ýmsu skipum á vegum fyrirtækisins í tvö ár. Þá tók ég að mér að vera yfirvélstjóri og viðhaldsstjóri nýs dráttarbáts á Sauðárkróki. Ég er ógreindur ADHD, ég þarf alltaf að hafa mörg járn í eldinum. Öðruvísi þrífst ég ekki. Ég kann ekki að hafa ekkert að gera,“ segir Ásgeir.
Núna á vorönn er Ásgeir að kenna vélstjórn 2 á móti Jóhanni Björgvinssyni. Einnig kennir hann AutoCad teikninguna fyrir vélstjóra og stálsmiði, fagteikningu málmsmíða og umhverfis- og öryggisfræði. Það er því í mörg horn að líta í kennslunni og það segist Ásgeir kunna vel að meta.
Þrátt fyrir að hafa hætt í miðju kafi fyrir margt löngu í rafvirkjunni á Króknum er sagan þar með ekki öll sögð. „Á sínum tíma leist mömmu ekkert allt of vel á að ég færi strax suður í Vélskólann, hún vildi að ég myndi fyrst klára rafvirkjann á Króknum. En öllum þessum árum síðar lokaði ég hringnum og stóð við loforðið við mömmu að einn góðan veðurdag myndi ég klára rafvirkjann. Ég lauk við það sem upp á vantaði á sínum tíma og útskrifaðist sem rafvirki hér í VMA í desember sl.,“ segir Ásgeir.
Samandregið er Ásgeir því lærður rafvirki, húsasmiður, vélfræðingur, skógnytjafræðingur og margmiðlunarhönnuður og þar að auki er hann með nám að baki sem á dönsku kallast maskinbygning eða einskonar vélsmíði. Það er því ekki ofsögum sagt að Ásgeir hafi skákað sjálfum Georg Bjarnfreðarsyni, sem stærði sig af fimm háskólagráðum. Og áður en langt um líður bætast við kennsluréttindi því það nám hóf Ásgeir í fjarnámi frá HÍ sl. haust.
„Til útskýringar á þessu öllu hef ég mjög breitt áhugasvið og ég get sökkt mér niður í hlutina. Til marks um það fékk ég fyrir síðustu jól lánaða kennslubók Hermanns Tómassonar kennara í VMA í tölfræði og hún var jólabókin mín í ár, enda fannst mér hún mjög skemmtileg aflestrar. Þetta efni var nýtt fyrir mér og þess vegna fannst mér það áhugavert,“ segir Ásgeir og upplýsir að þegar hann var yngri hafi hann horft til þess að byrja mögulega að fara í kennslu fimmtugur. Hann sé í raun fimm árum á undan áætlun því nú sé hann 45 ára gamall.