Árið 2024 er 40 ára afmælisár VMA
Árið 2024 er afmælisár í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Á þessu ári eru liðin fjörutíu ár frá því að kennsla hófst í VMA.
Byggingarsaga skólahúsanna í VMA er löng. Fyrstu skóflustunguna að grunni fyrsta skólahússins var tekin á Eyrarlandsholti af Ingvari Gíslasyni þáverandi menntamálaráðherra á afmælisdegi Akureyrarbæjar 29. ágúst 1981. Á fyrrihluta tuttugugstu aldar var á Eyrarlandsholti jarðræktarland og síðar nýtti Golfklúbbur Akureyrar landið fyrir golfvöll áður en starfsemin fluttist upp á Jaðar, þar sem GA hefur í tímans rás byggt upp framtíðaraðstöðu sína.
Upphaflega var gert ráð fyrir að skólahús VMA yrðu reist á sex árum en þær áætlanir fuku út í veður og vind.
Fyrsti áfangi skólans var aðstaða málmsmíðadeildar og var hún afhent Iðnskólanum á Akureyri 21. janúar 1983 til notkunar þar til Verkmenntaskólinn tæki til starfa. Nokkrum vikum síðar var auglýst eftir skólameistara hins nýja skóla og sóttu sjö um stöðuna. Þrír voru teknir í viðtal, Aðalgeir Pálsson, skólastjóri Iðnskólans á Akureyri, Bernharð Haraldsson, kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri, og Tómas Ingi Olrich, konrektor við MA. Fimm manna skólanefnd VMA samþykkti samhljóða að veita Bernharð stöðuna og var hann settur skólameistari frá 1. júní 1983. Hann gegndi stöðu skólameistara til 1999 þegar Hjalti Jón Sveinsson var ráðinn skólameistari. Sigríður Huld Jónsdóttir, núverandi skólameistari, tók síðan við keflinu af Hjalta Jóni.
Haustið 1984 hófst kennsla í hinum nýja Verkmenntaskóla á Akureyri og því eru á þessu ári fjörutíu ár liðin frá því að skólinn tók til starfa. Þess verður minnst með ýmsum hætti á afmælisárinu og er skipulag afmælisviðburða í höndum sérstakrar afmælisnefndar sem í eiga sæti bæði starfsmenn og nemendur skólans.
Það hefur verið gæfa VMA í gegnum tíðina að starfsmannavelta hefur verið lítil. Vert er að geta þess að tveir af núverandi starfsmönnum skólans, kennararnir Erna Gunnarsdóttir og Hálfdán Örnólfsson, hafa starfað við hann frá því að skólahaldinu var ýtt úr vör haustið 1984.