Áhugaverðar tölur um brautskráða nemendur í VMA 2019-2023
Í mörg undanfarin ár hefur Jóhannes Árnason kennari tekið saman tölulegar upplýsingar um skólastarfið, þar með talinn nemendafjölda, hvaðan þeir koma o.s.frv. Nýjustu tölulegu upplýsingar frá Jóhannesi varpa ljósi á brautskráningu nemenda frá skólanum síðustu fimm ár, 2019-2023, og undirstrika svo ekki verður um villst mikilvægi skólans í menntun á Akureyri og nágrannabyggðum. Fjölbreytnin er mikil og snertir ófáa strengi atvinnulífsins.
Á þessu 40 ára afmælisári VMA er áhugavert að rýna í þessar tölulegu upplýsingar fyrir síðustu fimm ár. Síðar á afmælisárinu verða skoðaðar tölulegar upplýsingar um skólastarfið og brautskráða nemendur skólans frá stofnun hans.
VMA brautskráir tvisvar á ári, í maí og desember. Heildarfjöldi brautskráningarskírteina á þessu árabili er 1426, að meðaltali 285 skírteini á ári. Að baki þessum skírteinum eru 1190 nöfn eða að jafnaði 238 brautskráningarnemar á ári. Ástæðan fyrir að skírteinin eru umtalsvert fleiri en brautskráningarnemarnir er sú að fjölmargir brautskrást með tvö skírteini eða fleiri. Og ófáir nemendur á verknámsbrautum bæta við sig einingum til stúdentsrófs að starfsnámi loknu.
Fjöldi brautskráningarskírteina síðustu fimm ár er sem hér segir:
2019 – 277 skírteini
2020 – 322 skírteini
2021 – 257 skírteini
2022 – 262 skírteini
2023 – 308 skírteini
Sem sagt; yfir þrjú hundruð skírteini bæði 2020 og 2023 og hin árin milli 250 og 300 skírteini.
Skipting brautskráðra á brautir skólans er eftirfarandi (hér er meistaraskólinn undanskilinn en hann er eingöngu kenndur í fjarnámi skólans):
Stúdentsprófsbrautir 428
Listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlína 77
Listnáms- og hönnunarbraut – textíllína 18
Viðskipta- og hagfræðibraut 23
Náttúruvísindabraut 36
Íþrótta- og lýðheilsubraut 62
Fjölgreinabraut 123
Félags- og hugvísindabraut 89
Viðbótarnám til stúdentsprófs eftir starfsnám 202
Verknámsbrautir 582
Bifvélavirkjun 14
Blikksmíði 11
Hársnyrtiiðn 27
Húsasmíði 100
Málmsuða 13
Múrsmíði 10
Pípulagnir 27
Framreiðsla 9
Matartækni 18
Matreiðsla 16
Rafeindavirkjun 42
Rafvirkjun 103
Sjúkraliðabraut 51
Stálsmíði 23
Vélvirkjun 29
Vélstjórn C-réttindi 23
Vélstjórn D-réttindi 66
Starfsbraut 27
Sérnámsbraut 9
Í þessari myndrænu framsetningu kemur vel fram hinn mikli fjölbreytileiki í námsvali í VMA. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari segir þessa mynd undirstrika meira en margt annað hversu margt standi nemendum til boða í skólanum. Og annað sem henni finnst mjög athyglisvert er sú staðreynd að á þessu árabili hafa á þriðja hundrað nemendur útskrifast með stúdentspróf að loknu starfsnámi. Með öðrum orðum; þessir nemendur hafa ákveðið að bæta við sig einingum eftir að hafa fengið starfsréttindi í hinum ýmsu iðngreinum til þess að ljúka stúdentsprófi. Óhikað má segja að þessir nemendur standa sterkir að vígi og þeim eru allir vegir færir, hvort heldur sem þeir ákveða að fara út á vinnumarkaðinn að loknu námi í VMA eða halda áfram námi.