Að móti straumnum
Þær sigla móti straumnum, ef svo má segja. Stunda nám í VMA á námsbrautum þar sem karlar hafa í gegnum tíðina verið í miklum meirihluta nemenda. Og þær eru meira en sáttar við að hafa valið þessar brautir. Margrét Dana Þórsdóttir lýkur í vor grunndeild málmiðnaðar og ætlar áfram í vélstjórn og Katrín Lind Sverrisdóttir er að ljúka fyrsta árinu í húsasmíðinni.
Ekki þarf að hafa um það mörg orð að í mörgum störfum er mikill kynjahalli – í báðar áttir – og þetta endurspeglast í aðsókn á námsbrautir í VMA. Árum saman hefur mikill meirihluti nemenda í byggingadeild, á málmiðnaðarbraut, rafdeild, bifvélavirkjun, múrsmíði, pípulögnum og vélstjórn verið karlar og að sama skapi hafa konur verið í miklum meirihluta í t.d. hársnyrtiiðn og sjúkraliðanámi. Í nokkrum af þessum námsgreinunum hafa markvissar kynningar þó skilað fleiri konum í hinar svokölluðu karllægu greinar en betur má ef duga skal.
Núna á vorönn eru sex konur í námi í þeim greinum byggingadeildar VMA sem nú eru kenndar – húsasmíði, pípulögnum og múrsmíði, í rafdeild eru þær sex, á málmiðnaðarbraut eru þær þrjár, tvær í bifvélavirkjun og tvær í vélstjórn/vélvirkjun.
Þýðir ekkert að fara í þetta með hálfum huga
Margrét Dana segir að það hafi aldrei verið spurning hvaða leið hún vildi fara í námi, hún hafi fyrir löngu stefnt á vélstjórn. Hún hóf nám haustið 2022 á brautabrú, er núna að ljúka grunnnáminu á málmiðnaðarbraut, sem er undanfari vélstjórnar, og stefnan er tekin á að hefja vélstjórnarnámið næsta haust. Hún segir að áhugi hennar liggi einfaldlega á þessu sviði, hún hafi alist upp með vélum, enda í Skútabergsfjölskyldunni sem rekur samnefnt verktakafyrirtæki og steypustöð á Akureyri. Frá þrettán ára aldri segist hún hafa stýrt jarðýtum en hún þurfi að bíða enn um sinn með að keyra steypu- og vörubíl. Til þess að fara í meiraprófið þarf Margrét að ná 21 árs aldri en núna er hún 17 ára. „Í mínum huga var þetta ekkert flókið, ég valdi einfaldlega það nám sem mig langaði að læra. Þetta er mitt áhugasvið. Það þýðir ekkert að fara í þetta með hálfum huga, ég geri mér vel grein fyrir því að vélstjórnin er massíft nám,“ segir Margrét.
Mig langaði í verklegt nám
Katrín Lind hóf nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA haustið 2022 og var þá með það í huga að búa sig undir háskólanám í arkitektúr. Eftir fyrsta árið ákvað hún að taka u-beygju og hóf sl. haust nám í húsasmíði. „Ég fann bara að mig langaði meira í verklegt nám og ég sé síður en svo eftir því að hafa skipt, þetta er mjög skemmtilegt nám. Sumir voru hissa á því að ég skyldi fara í smiðinn en það hafði ekki áhrif á mig, ég valdi bara það sem mig langaði að læra,“ segir Katrín. Og arkitektúrinn er sannarlega ennþá inni í myndinni því hún ætlar einnig að taka stúdentspróf. Þar með verður hún komin með það sem til þarf til umsóknar í arkitektúr. Og gott betur því vart er hægt að fá betri grunn í arkitektúr en einmitt að læra húsasmíði. Að ekki sé talað um að húsasmíðin veitir starfsréttindi að námi í skóla og sveinsprófi loknu.
Margrét og Katrín eru sammála um að það sem fyrst og fremst ræður vali nemenda á skólum og námsbrautum sé í hvaða nám vinirnir ætli að fara. Einnig hafi foreldrarnir mjög mikið um það að segja hvaða nám börn þeirra fari í. Allt of sjaldgæft sé að nemendurnir sjálfir taki sjálfstæða ákvörðun um skóla og/eða námsbraut.
Konur í iðngreinum þurfa að vera sýnilegri
„Við þurfum að leggja meiri áherslu á að sýna þá möguleika sem felst í því að fara í vélstjórn. Ímyndin er sú að vélstjórar séu úti á sjó og fyrir þá sem það kjósa er það örugglega hin skemmtilegasta vinna. En möguleikarnir í landi eru óteljandi fyrir vélstjóra og rafvirkja. Ég held að skipti miklu máli að við konur sem erum með þessa menntun og erum í fjölbreyttum störfum í landi séum sýnilegri. Við erum ákveðnar fyrirmyndir sem skiptir miklu máli. Á sínum tíma leit ég mjög upp til Rannveigar Rist, forstjóra álversins í Straumsvík. Hún var mikið í fjölmiðlum á þeim tíma og var mér ákveðin fyrirmynd. Þegar ég síðan vann um tíma í Kröfluvirkjun var kona þar vélstjóri, Snædís Einarsdóttir, og mér fannst hún mjög flott í sínu starfi.
Ég ólst upp í Mývatnssveit og þar var engin kynjaskipting, við gengum þar jafnt í öll störf. Pabbi starfaði sem vélstjóri í Kröflu og mamma sá um verkin heima og við systurnar gengum í þau jöfnum höndum líka.
Það eru fjölmargar konur í þessum geira atvinnulífsins en við vitum hreinlega ekki af þeim. Við þurfum að vera sýnilegri til þess að sýna stelpum sem velta fyrir sér í hvaða nám þær eiga að fara að þessi störf eru ekkert síður fyrir þær en strákana. Og það skiptir líka miklu máli að konur kynni vélstjórnarnámið og aðrar karllægar námsbrautir ekki síður en karlkennarar. Það er afar mikilvægt fyrir stelpur að sjá að kynsystur þeirra kenna á þessum námsbrautum og að þær hafi líka haslað sér völl í greininni,“ segir Svanhildur Björk Pétursdóttir viðhaldsstjóri Alcoa, álversins á Reyðarfirði. Svanhildur lauk vélstjórnarnámi frá VMA árið 2012 og lærði einnig véliðnfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún starfaði um tíma sem verkefnastjóri hjá VHE vélaverkstæði á Austurlandi. Rekstrarstjóri viðhalds hjá Alcoa var hún frá 2019 en var síðan ráðin framkvæmdastjóri viðhalds hjá fyrirtækinu á síðasta ári.
Rafvirkjun ekkert síður fyrir stelpur en stráka
Lilja Hólm segir að á sínum tíma hafi ekki verið sjálfgefið að hún færi að læra rafvirkjann. Um tíma hafi tónlistarnám kallað á hana en rafvirkjunin varð þó ofan á. Faðir Lilju og afi höfðu lagt rafvirkjun fyrir sig og í uppvextinum kom hún iðulega á verkstæðið hjá föður sínum og öll verkfæri, tól og tæki sem tilheyrðu rafvirkjuninni urðu hluti af hversdagsleikanum. „Ég útskrifaðist úr rafvirkjun í VMA árið 2017 og sveinsprófinu árið eftir. Síðan hef ég unnið hjá pabba í fyrirtækinu Ljósco hér á Akureyri,“ segir Lilja og bætir við að eftir því sem hún komist næst sé innan við tugur kvenna sem starfi í rafvirkjun á Akureyri.
En af hverju velja ekki fleiri konur að fara í rafvirkun? „Ég veit það satt best að segja ekki. Kannski er það þessi ímynd, þetta sé karlastarf, rafvirkjar séu í vinnufötum með verkfærin framan á sér. En mér finnst þetta vera þó hægt og bítandi í rétt átt. Ég tek eftir því að þegar birtar eru myndir í kynningarauglýsingum um iðngreinar eru gjarnan bæði karlar og konur á þeim. Það segir mér að það er meðvitað reynt að breyta þeirri ímynd að þessar svokölluðu karllægu iðngreinar séu bara karlastörf.
Ég hef ekki ákveðið svar við því hvernig sé best að ná betur til stelpnanna. En þó myndi ég halda að það sé mikilvægt að þær fái strax í grunnskóla að kynnast sem flestum iðngreinum og prófa eitt og annað. Til dæmis að sýna þeim á einfaldan hátt hvernig rafmagn virkar. Og það má ekki gleyma því að með snjall- og tölvuvæðingunni hefur margt breyst í rafiðngreinum sem gæti vakið áhuga fleiri. Það þarf fyrst og fremst að vekja áhuga stelpnanna og kynna fyrir þeim hversu fjölbreytt og skemmtilegt starf rafvirkjun er.
Almennt held ég að þetta sé langhlaup og þetta muni hægt og bítandi síga í rétta átt. Það tekur bara tíma að breyta gömlum og rótgrónum hugmyndum um störf. Til dæmis er það svo að það eru ekki mörg ár síðan hægt var að fá kvennasnið í vinnubuxum sem við rafvirkjar klæðumst. Það segir sína sögu. Og enn er langt í land í þessum efnum. Ég fór t.d. um daginn í búð á Akureyri og spurði hvort ákveðin tegund af vinnubuxum sem ég vildi ganga í væri komin í kvennasniðum. Nei, því miður, var svarið.
Ég ítreka að starf rafvirkja er í senn fjölbreytt og skemmtilegt og ofan á það er hægt að byggja á ýmsan hátt, kjósi maður svo, með frekari námi. Ég ákvað til dæmis að mennta mig meira og er núna á fyrsta árinu af þremur í fjarnámi við Háskólann í Reykjavík í rafmagnsiðnfræði. Út úr þessu námi fæ ég tvennt, annars vegar að verða rafmagnsiðnfræðingur og jafnframt get ég sótt í framhaldi af náminu um meistararéttindi í rafvirkjun – sem kemur þá í stað meistaraskólans sem hægt er að taka í fjarnámi við VMA og margir gera. Og það er auðvitað hægt að fara í ýmislegt annað eftir nám í rafvirkjun. Til dæmis er í boði nám í dagskóla við Háskólann á Akureyri í samstarfi við HR. Það er því eitt og annað í boði til frekara náms, kjósi rafvirkjar það. Rafvirkjunin er alls ekki nein endastöð, hún er í senn tækifæri til þess að fá starfsréttindi á vinnumarkaði og mjög góður grunnur fyrir frekara nám. Ég mæli eindregið með þessu, ekkert síður fyrir stelpur en stráka,“ segir rafvirkinn Lilja Hólm.