Fara í efni

Viðbótarnám við vélgæslunámskeið (vélavörður 750 kW og minni)

Nemendur sem hafa lokið vélgæslunámskeiði eða sveinsprófi í vélvirkjun geta bætt við sig 8 - 10 einingum í vélstjórnargreinum (RAF103 og tveimur af eftirfarandi þremur áföngum: RAF253, VST204 og KÆL122). Boðið verður uppá þetta nám við VMA á haustönn 2016. Kennt verður föstudaga og laugardaga í september og október og hefst fyrsta kennslulota 9. september.

Skráning fer fram á skrifstofu VMA í síma 464-0300 eða með tölvupósti á netfangið skrifstofa@vma.is. Námskeiðsgjaldið er 130.000 og með greiðslu námskeiðsgjalds er þátttakan staðfest. Minnum á styrki frá stéttarfélögum. Námskeiðsgjaldið er óafturkræft 7 dögum fyrir námskeiðsbyrjun.

Markmið námskeiðsins er vélstjórnarskírteini á skipum, sem eru 24 metrar að skráningarlengd og styttri og með vélarafl minna en 750 kW. Markmiðið er að veita vélstjórnarmönnum nægilega haldgóða þekkingu og færni til að annast vélstjórn á smábátum.

Nánar: Skv. reglugerð nr. 886/2010 um breytingu á reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum segir:

Sá sem lokið hefur vélgæslunámi samkvæmt reglugerð settri af menntamálaráðuneyti eða sveinsprófi í vélvirkjun, hefur öðlast rétt til að vera vélavörður á skipum 12 metrar og styttri að skráningarlengd með vélarafl 750 kW eða minna (Skírteini: Smáskipavélavörður (SSV)).

Að loknu viðbótarnámi (RAF103 og tveir af eftirfarandi þremur áföngum; RAF253, VST204 og KÆL122, Véltækniskólanum er heimilt að meta sambærilega áfanga jafngilda) sem skilgreint er í námskrá öðlast hann rétt til að vera vélavörður á skipi með 750 kW vél og minni (Skírteini: Vélavörður (VV)) og yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vél og minni og 24 metrar og styttri að skráningarlengd að loknum 4ra mánaða siglingatíma sem vélavörður (Skírteini: Vélavörður (VVY)).“