Fara í efni

Kennarar frá Köbenhavns VUC í heimsókn í VMA

Sören Cardel Lindskrog og Hanne Mortensen.
Sören Cardel Lindskrog og Hanne Mortensen.

Þessa viku hafa tveir danskir kennarar, Hanne Mortensen og Sören Cardel Lindskrog, frá Köbenhavns VUC (voksen uddannelses center) verið í VMA til að kynna sér starfsemi skólans og kenna nemendum í VMA dönsku. Heimsóknin er liður í norrænu samstarfsverkefni sem VMA og Köbenhavns VUC taka þátt í. Auk þess koma að verkefninu nokkrar stofnanir og fleiri skólar; Katrinelundsgymnasiet i Gautaborg í Svíþjóð, Hadeland videregående skole i Noregi og Århus Universitet í Danmörku.

Verkefnið, sem beinir sjónum að tungumálakennslu, er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni – svokallað Nord+ verkefni. Sem rauður þráður í gegnum verkefnið eru norrænar glæpasögur en sem kunnugt er hafa Norðurlöndin markað sér ákveðna sérstöðu í útgáfu á glæpasögum og gerð glæpaþátta í sjónvarpi. Nægir þar að nefna nýjustu afurðina, Ófærð, sem hefur fengið mjög góðar viðtökur erlendis, m.a. í Noregi.
Norræna ráðherranefndin greiðir ferðakostnað og uppihald. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem hófst í ágúst á sl. ári. og fara kennarar frá áðurnefndum skólum á milli landanna og kenna þar til í nokkra daga. Í næsta mánuði fara tveir kennarar frá VMA, Annette de Vink og Þorbjörg Dóra Gunnarsdóttir til Kaupmannahafnar til að kynna sér starfsemi Köbenhavns VUC og kenna nemendum þar. Í sama mánuði verður fundur í verkefninu í VMA og þar verða fulltrúar allra þeirra skóla og stofnana sem taka þátt í því til að leggja línur og skipuleggja næstu skref.

Hanne Mortensen kennir dönsku og sögu en Sören Cardel Lindskrog kennir innflytjendum dönsku sem annað tungumál.  Nemendur Köbenhavns VUC eru flestir á aldrinum 18 til 50 ára og er meðalaldur þeirra ca. 22 ár. Margir nemendanna hafa af einhverjum ástæðum hætt í framhaldsskóla en ákveðið að taka upp þráðinn að nýju. Nemendasamsetning skólans er því töluvert frábrugðin VMA.

Hanne og Sören segja að dönsku kennararnir sem taka þátt í verkefninu hafi nánast slegist um að fá að fara til Akureyrar enda sé Ísland á vissan hátt framandi og flestir hafi komið áður til nágrannalandanna Noregs og Svíþjóðar. Fólki hafi því þótt mest spennandi og eftirsóknarverðast að fara til Íslands.