Fara í efni

Fjórfaldir Íslandsmeistarar í sundi

Bergur Unnar (t.v.) og Fannar Logi.
Bergur Unnar (t.v.) og Fannar Logi.

Tveir nemendur í VMA, Fannar Logi Jóhannesson og Bergur Unnar Unnsteinsson, gerðu það heldur betur gott á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í Ásvallalaug í Hafnarfirði um liðna helgi. Þeir gerðu sér lítið fyrir og komu heim með fjóra Íslandsmeistaratitla og fjölda silfur- og bronsverðlauna. Þjálfari þeirra er Kristjana Pálsdóttir, sem auk þess að þjálfa hjá Sundfélaginu Óðni er stuðningsfulltrúi í VMA. Auk þeirra tveggja átti Óðinn tvo aðra keppendur á mótinu, Axel Birki Þórðarson og Breka Arnarsson, og var árangur þeirra einnig mjög góður, þó ekki næðu þeir að vinna Íslandsmeistaratitla.

Um var að ræða Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í 25 metra laug. Fannar Logi Jóhannesson varð Íslandsmeistari í flokknum S14 16 ára og yngri í 100 og 50 m bringusundi og annar í 50, 100 og 200 m skriðsundi og 50 m baksundi. Í karlaflokki varð hann annar í 200 m fjórsundi og 200 m skriðsundi og fjórði í 100 metra fjórsundi.

Bergur Unnar Unnsteinsson varð Íslandsmeistari í S14 16 ára og yngri í 50 m skriðsundi og 50 m baksundi, í öðru sæti í 100 og 50 m bringusundi og þriðji í 100 m skriðsundi. Hann varð síðan þriðji í fullorðinsflokki í 100 m fjórsundi.

Kristjana Pálsdóttir, þjálfari þeirra félaga, er hæstánægð með árangurinn og segir hann mikla hvatningu fyrir þá og einnig sig sem þjálfara. “Strákarnir hafa æft mjög vel og lagt mikið á sig. Þeir eru afar efnilegir og eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér í sundinu. Ég veit að þeir eiga ennþá töluvert mikið inni og þetta er okkur öllum hvatning að leggja ennþá meira á okkur við æfingarnar,” segir Kristjana, sem hóf störf sem stuðningsfulltrúi við VMA sl. og segist afar ánægð með starfið og starfsandann í skólanum. Hún lærði sálfræði í Háskóla Íslands og tók þar einnig kennslufræði og lýðheilusfræði til meistaraprófs. Auk vinnunnar í VMA þjálfar hún sund hjá Sundfélaginu Óðni, þar á meðal þá Fannar Loga og Berg Unnar.  Hún þekkir vel til Sundfélagsins Óðins því undir merkjum þess keppti hún á yngri árum, en fjórtán ár eru síðan hún lagði keppnissundbolnum. Hún segir afar skemmtilegt að endurnýja kynnin við sundið og Óðin og sérstaklega skemmtilegt sé að starfa aftur með Ragnheiði Runólfsdóttur, sem er yfirþjálfari hjá Óðni, en hún þjálfaði Kristjönu um tíma hér á árum áður.