Fara í efni

Elísa Ýrr Erlendsdóttir sigraði Söngkeppni VMA 2016

Elísa Ýrr Erlendsdóttir.
Elísa Ýrr Erlendsdóttir.

Elísa Ýrr Erlendsdóttir sigraði Söngkeppni VMA-Sturtuhausinn í Menningarhúsinu Hofi í gærkvöld með lagi Amy Winehouse  You know I‘m no good . Dómnefndin á keppninni í gærkvöld, sem var skipuð þeim Ernu Gunnarsdóttur, söngkonu og enskukennara við VMA, Hjalta Jónssyni, stórtenór og sálfræðingi VMA og Magna Ásgeirssyni, tónlistarmanni, var ekki öfundsverð að komast að niðurstöðu, enda mörg virkilega fín atriði að þessu sinni. En niðurstaða dómnefndarinnar var sú að Elísa Ýrr sigraði, í öðru sæti varð Anton Líni Hreiðarsson með frumsamda lagið sitt Friendship og í þriðja sæti varð Sindri Snær Konráðsson með lagið Dimmar rósir með Töturum, en Sindri kemur einmitt til með að syngja þetta lag í söngleiknum Bjart með köflum, sem Leikfélag VMA frumsýnir í Freyvangi nk. fimmtudagskvöld.

Söngkeppnin í gærkvöld var í einu orði sagt frábær skemmtun og söngatriðin hvert öðru betra. Ljóst er að sjaldan hafa verið jafn margir hæfileikaríkir söngvarar og tónlistarmenn í VMA og nú og það má mikið vera ef ekki á eftir að heyrast frá mörgum þeirra í framtíðinni. Vert er að þakka öllum sem lögðu hönd á plóg við skipulagningu og framkvæmd keppninnar, hún var þeim öllum til mikils sóma.

Hér er fullt af fleiri myndum frá keppninni í gærkvöld. Myndirnar tóku tveir fyrrverandi nemendur VMA, Ólafur Larsen Þórðarson og Atli Ágúst Stefánsson, Egill Bjarni Friðjónsson, núverandi nemandi í VMA og Hilmar Friðjónsson, kennari í VMA.

Eins og fram hefur komið hefur stjórn Þórdunu – skólafélags VMA ákveðið að segja sig frá Söngkeppni framhaldsskólanna vegna breyttra reglna um keppnina í ár og því mun Elísa Ýrr ekki taka þátt í þeirri keppni í vor. Þess í stað mun hún koma fram á jólatónleikum Friðriks Ómars í Hofi í desember næstkomandi, sem ætla má að verði ekki síður mikil upplifun fyrir hana.

Hljómsveitin í gærkvöld var frábær, enda valinn maður í hverju rúmi. Hana skipuðu Tómas Sævarsson hljómborðsleikari, Stefán Gunnarsson á bassa, Hallgrímur Jónas Ómarsson á gítar og Valgarður Óli Ómarsson á trommur og í sigurlaginu lögðu tveir saxófónleikarar hljómsveitinni lið.

Kynnar kvöldsins voru VMA-kennararnir Börkur Már Hersteinsson og Hannesína Scheving og fóru á kostum.

Elísa Ýrr Erlendsdóttir var að vonum kampakát með sigurinn. „Þetta var mjög sterk keppni og ég bjóst alls ekki við því að vinna hana,“ sagði hún rétt eftir að hafa endurtekið sigurlagið. Hún upplýsir að hún sé í söngnámi hjá Þórhildi Örvarsdóttur, söngkonu, í Tónlistarskólanum á Akureyri.  „Ég valdi þetta lag vegna þess að ég er mikill Amy-aðdáandi og langaði því að prófa að syngja lag eftir hana. Söngurinn hefur fylgt mér frá því ég fæddist og á þessu sviði stefni ég langt. Ég er ákveðin í því að fara út í söngleikjanám. Ég hef verið í leiklistinni líka, lék í Lísu í Undralandi í Samkomuhúsinu. Mér finnst mjög gaman að syngja og túlka og ég ætla að læra meira á því sviði.“
Elísa Ýrr er á hönnunarbraut í VMA og er núna á öðru ári. „Mér líkar námið mjög vel, þetta hentar prýðilega,“ segir hún. Hún er Reykvíkingur að upplagi en flutti til Akureyrar fyrir níu árum og kærir sig hreint ekki um að fara aftur suður. Hér vill hún vera.