Nemendur í sóttkví eða einangrun
Nemendur sem eru í sóttkví eða einangrun tilkynna það til skrifstofu skólans (464-0300) sem er opin kl. 8 - 15, en lokar kl. 13 á föstudögum. Utan opnunartíma er hægt að senda tölvupóst á netfangið vma@vma.is. Ekki er lengur gerð rakning innan skólans.
Kennarar fá upplýsingar um þá nemendur sína sem eru í sóttkví og einangrun á hverjum tíma. Nemendur fá upplýsingar í tölvupósti ef kennari er í sóttkví eða einangrun. Kennarar bera ábyrgð á því að upplýsa nemendur um aðgengi að kennsluefni og verkefnum áfangans á meðan nemandi er fjarverandi.
Nám og kennsla í sóttkví/einangrun
Nemandi í sóttkví þarf að fylgjast með í eigin námi og kennari í sóttkví mun kenna samkvæmt stundatöflu. Það fer síðan eftir heilsufari hvort nemandi getur sinnt námi í einangrun. Kennarar í einangrun veita upplýsingar til nemenda um aðgengi að námsefni áfanga eftir því sem kennari metur sjálfur.
Nemandi í sóttkví/einangrun
Nemandi fær upplýsingar frá kennara áfanga um aðgengi að námsgögnum og verkefnum á meðan sóttkví/einangrun stendur. Ekki er gert ráð fyrir beinum útsendingum úr kennslustundum fyrir nemendur sem ekki eru á staðnum. Mikilvægt er að nemendur sinni námi eins og aðstæður leyfa í sóttkví og einangrun.
Nemandi í sóttkví eða einangrun fær merkinguna C í Innu og telst ekki sem fjarvistarstig.
Kennari í sóttkví/einangrun
-
Kennsla fer fram með rafrænum hætti samkvæmt stundatöflu ef kennari er í sóttkví. Kennari hefur samband við alla nemendahópa sína á hverjum degi og fer kennslan fram eftir skipulagi hvers kennara/áfanga. Notast verður t.d. við Meet-fjarfundi, Moodle, Innu, Google eða með þeim hætti sem kennari skipuleggur og kynnir fyrir nemendum sínum. Mjög mikilvægt að nemendur fylgist með tölvupósti sem sendur er í VMA netfang nemenda. Kennari í einangrun sem er veikur fellir niður kennslu í samræmi við heilsufar sitt.
-
Mæting í rafræna kennslustund er skráð með bókstafnum M eins og venjulegri kennslustund. Ef nemandi mætir ekki í kennslustund fær hann F fyrir fjarvist.
-
Kennarinn getur óskað eftir því að nemendur séu í mynd hvenær sem er í kennslustundinni en það er til að tryggja að viðkomandi sé sannarlega mættur í kennslustundina. Undanskilið eru nemendur sem hafa tilkynnt sig veika en vilja getað fylgst með.
-
Í rafrænum kennslustundum gilda sömu reglur og í venjulegum tíma. Nemendur taka tillit til samnemenda sinna, fylgja fyrirmælum kennara og eru þátttakendur í tímanum.
Nemendur eru beðnir um að mæta alltaf í skólann með fartölvur og heyrnartól þannig að þeir geti tekið rafrænar kennslustundir hér í skólanum.
Kennslustofa sem er skráð á áfangann verður til taks fyrir nemendur sem taka rafræna tímann í VMA en að öllu jafna verður ekki gerð krafa um að nemendur mæti í kennslustofuna sjálfa. Undantekningar geta verið á því komi fyrirmæli til nemenda um það.
Nemendur í verklegum kennslustundum geta ekki mætt í verklegar kennslustofur nema fyrirmæli um annað komi frá kennurum áfangans. Það er einfaldlega til að tryggja öryggi nemenda og er nemendum alls ekki heimilt að fara inn í verklegar kennslustofur án leiðsagnar frá kennara.
Nemendur í rafrænni kennslustund hafa forgang að aðstöðu á bókasafni. Hægt er að fá lánaðar fartölvur á bókasafni skólans en við brýnum við nemendur að koma með eigin fartölvur því skólinn á ekki ótakmarkað magn af fartölvum til útláns. Nemendur í einangrun eða sóttkví sem eiga ekki fartölvu geta óskað eftir því að fá lánaða fartölvu heim til sín frá bókasafni skólans.
Breytingar á skólastarfi getur orðið fyrirvaralaust komi upp hópsmit eða vegna fyrirmæla frá almannavörnum.
Eyrarlandsholti, 28. janúar 2022
Sigríður Huld, skólameistari VMA