Jafnréttisstefna

Jafnréttisáćtlun Verkmenntaskólans á Akureyri  Inngangur Í Stjórnarskrá lýđveldisins stendur: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án

Jafnréttisstefna

Jafnréttisáætlun Verkmenntaskólans á Akureyri

 Inngangur

Í Stjórnarskrá lýðveldisins stendur:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Þetta lagaákvæði liggur til grundvallar jafnréttisáætlun þessari en hún er unnin í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þar sem m.a. kemur fram að gæta skuli jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins og að efla skuli fræðslu um jafnréttismál. Í VMA er stefnt að því að kynja- og jafnréttissjónarmið séu samþætt allri starfsemi skólans, s.s. við stjórnun, kennslu og önnur störf og að jafnrétti kynja verði haft að leiðarljósi við stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð. Hér koma fram helstu áherslur skólans í jafnréttismálum og hvernig VMA hyggst ná markmiðum sínum. Áætlunin nær annars vegar yfir VMA sem vinnustað og þar með málefni sem varða starfsfólk, en hins vegar fjallar hún um skólann sem menntastofnun og þar með rétt nemenda.

Vinnustaðurinn VMA

Í VMA skal stuðlað að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best og stefnt er að því að tryggja hverjum og einum starfsskilyrði og viðfangsefni við hæfi. Tryggt skal að karlar jafnt sem konur njóti jafnréttis, að starfsfólk sé metið að verðleikum og sýni hverju öðru virðingu í samskiptum sín á milli. Skulu jafnréttissjónarmið ætíð höfð að leiðarljósi við mikilvægar ákvarðanatökur er varða starfsfólk skólans.

I. Staða og kjör karla og kvenna

Stjórnendur VMA skulu tryggja að hvorugu kyninu sé mismunað við úthlutun verkefna svo og við ákvarðanir á starfsaðstæðum. Innan skólans starfar fólk með mismunandi menntun og reynslu að margvíslegum störfum. Starfsmenn VMA dreifast á all nokkur stéttarfélög og samningsbundin kjör þeirra og starfsaðstæður eru því mismunandi.

Í lok ársins 2011 voru 163 stafsmenn við skólann í 150 stöðugildum og er kynjahlutfall allra starfsmanna 51% konur og 49% karlar. Því starfa sem næst jafn margar konur og karlar innan skólans. Kennarar voru flestir í hópi fastra starfsmanna við skólann eða 120, en af þeim voru 48% konur og 52% karlar. Í öðrum störfum (húsumsjón, skrifstofa, bókasafn, tölvuþjónusta) innan skólans voru 76% konur og 24% karlar. Í hópi fag- og brautarstjóra voru kynjahlutföllin 48% konur og 52% karlar. Hlutfall kvenna í hópi stjórnenda (kennslustjórar, áfangastjórar, aðstoðarskólameistari og skólameistari) var 45% en karla 54%.

Mikilvægt er að konur og karlar hafi sömu tækifæri í starfi innan skólans. Áhersla er lögð á að jafna hlutfall kynjanna í sambærilegum stöðum, einkum í stjórnunar- og áhrifastöðum eins og jafnréttislög gera ráð fyrir. Við ráðningar skulu jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi og leitast við að hafa kynjahlutfall starfsfólks sem jafnast þar sem mikilvægt er að konur og karlar séu ámóta sýnileg innan skólans. Í nóvember annað hvert ár skal reikna út hlutfall kynjanna á hverju sviði og innan hverrar deildar fyrir sig og leitast við að stemma stigu við kynjaslagsíðu, í þeim deildum sem hennar verður vart, við næstu ráðningar. Eins skal reikna út kynjahlutfall einstakra deilda í hvert sinn sem ráða á í stöðu viðkomandi deilda og leitast við að jafna hlut karla og kvenna.

Gæta skal þess að allir starfsmenn hafi jafna möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar, óháð kyni.

II. Samræming vinnu og fjölskyldulífs

Eitt af því sem skólinn telur mikilvægt að leggja áherslu á er samræming vinnu og fjölskyldulífs starfsmanna og vill skólinn leggja sitt af mörkum í því efni, m.a. með því að hvetja bæði kyn til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs og hafa sama sveigjanleika gagnvart konum og körlum varðandi veikindi barna. Skólinn leitast við að vera fjölskylduvænn vinnustaður, enda mikilvægt að bæði karlar og konur njóti sín í starfi við skólann og telur VMA að samræming vinnu og fjölskyldulífs sé mikilvægur liður í jafnrétti kynjanna.

III. Kynferðisleg áreitni og einelti

Vellíðan á vinnustað er mikilvægur þáttur í gæðamarkmiðum skólans og er kynferðisleg eða kynbundin áreitni ekki liðin í VMA. Í skólanum er lögð áhersla á að innan hans ríki gagnkvæm virðing karla og kvenna meðal starfsmanna skólans og nemenda. Í eineltisáætlun skólans eru leiðbeiningar um vinnulag í málum er varða kynferðislega áreitni. Í starfsmannakönnun sem gerð er annað hvert ár skal spyrja hvort starfsmenn hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Menntastofnunin VMA

Í lögum um framhaldsskóla kemur fram að þeim sé ekki einungis ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám heldur skuli þeir einnig m.a. leitast við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda auk þess að þjálfa þá í jafnrétti og gagnrýnni hugsun. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi með því að bjóða hverjum nemenda nám við hæfi.

I. Staða karla og kvenna í nemendasamfélaginu

Í VMA skal stuðlað að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, kynferði, kynhneigð, litarhætti, þjóðerni, trú, búsetu eða efnahag. Stefnt er að því að tryggja hverjum og einum viðfangsefni og menntun við hæfi.

Á haustönn 2011 voru 1313 nemendur í dagskóla VMA, nánast jafn margir í verklegu námi og bóknámi, 667 nemendur í bóknámi (stúdentsbrautir) og 645 í verklegu námi (iðn- og starfsnámsbrautir). Hlutfall kvenna innan nemendahópsins var 45,5% en karla 54,5%. Hlutfall karla í verklegu námi innan skólans var 28% en kvenna 21%. Á ákveðnum brautum er hlutfall karla mjög hátt t.d. í málm- og véltæknigreinum á meðan konur eru í meirihluta á öðrum brautum t.d. í sjúkraliðanámi og á hársnyrtibraut. Hlutfall karla og kvenna á stúdentsbrautum er svipað, 26% nemenda skólans eru karlar á stúdentsbrautum en 24% konur á stúdentsbrautum.

II. Námsframboð og námsráðgjöf

Námsframboð skal höfða til beggja kynja og stefnir skólinn að því að auka fjölda kvenna í námi á tæknisviði skólans með markvissum aðgerðum. Þetta verði m.a. gert með því að kynningar á námsleiðum, námsefni og kennslutilhögun séu þannig að þær höfði til beggja kynja. Námsráðgjafar skulu vera meðvitaðir um vægi kynbundinnar félagsmótunar í námsvali nemenda og hvetja nemendur til að íhuga námsleiðir þar sem kynjaslagsíða er mikil. Þá skulu kennarar vera meðvitaðir um misjafnt viðhorf kynjanna til stétta sem oft eru flokkaðar sem karla- eða kvennastéttir og leitast við að leiðrétta ranghugmyndir sem nemendur kunna hafa um einstaka starfsstéttir. Jafnframt skal unnið að því að andrúmsloft, viðhorf til náms og fyrirkomulag kennslu á einstökum brautum fæli hvorki karla né konur frá því að velja þá námsleið sem einstaklingum hugnast.

Við inntöku á brautir eða svið þar sem fjöldi nemenda er takmarkaður skal leitast við að leiðrétta kynjamun reynist umsækjendur jafnhæfir og með sambærilegan bakgrunn.

III. Kennsla

Í nýrri menntastefnu er jafnréttismenntun skilgreind sem ein af sex grunnþáttum menntunar. Markmið hennar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og skal nemendum kennt að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra með umræðum um jafnrétti, fordóma, samskipti, ólíkar þarfir einstaklinganna og fleira. Kennarar skulu leita allra leiða til að efla sjálfsvirðingu og sjálfsvitund nemenda með það að markmiði að styrkja hvern einstakling svo ákvarðanir hans byggi á eigin sannfæringu en ekki viðhorfum hóps eða staðalímyndum. Að sama skapi skulu kennarar leitast við að kenna nemendum að verja sig gegn ráðandi orðræðu um staðalímyndir kynjanna með auknum umræðum og rökræðum um þá skaðsemi sem slíkar skoðanir geta haft í för með sér.

Stefnt skal að því að hanna áfanga þar sem jafnrétti og kynjafræði verður sérstaklega tekið fyrir. Við endurskoðun jafnréttisáætlunar verður það kannað í hve mörgum áföngum jafnrétti er tekið fyrir en á haustönn 2011 var enginn áfangi með orðið jafnrétti í kennsluáætlun sinni.

Við val á námsefni skulu kennarar vega það og meta á gagnrýninn hátt með tilliti til kynjasjónarmiða og ræða við nemendur einstök tilfelli kynjaslagsíðu greinist hún í því efni sem notast er við.

Kennarar skulu tryggja að ólíkum þörfum nemenda sé mætt með notkun á fjölbreyttum kennsluaðferðum og gæta skal þess að nemendum sé ekki ætlaður ákveðinn námsstíll vegna kyns. Þá skulu kennarar vera meðvitaðir um það hvernig þeir tala við nemendur, t.d. hvort kynjunum sé hrósað á sambærilegan hátt og hvort gerðar séu sömu kröfur til kynjanna um hegðun og samskipti á meðan á kennslu stendur. Í þeim námsgreinum sem öðru kyninu gengur almennt betur skal markvisst nota aðferðir og efni til að hvetja alla nemendur til dáða. Í kennslukönnun, sem framkvæmd er á hverri önn, og þjónustukönnun, sem framkvæmd er á tveggja ára fresti, skal kanna hvernig nemendum þykir kennarar og starfsfólk standa sig á þessum sviðum og leita leiða til úrbóta reynist þess þörf.

IV. Aðgerðir vegna brottfalls nemenda

Brottfall úr framhaldsskólum er mikið áhyggjuefni en strákar virðast frekar hverfa frá námi en stelpur. Á síðustu misserum hefur VMA leitast við að finna leiðir til að minnka brottfall nemenda úr skólanum meðal annars með innleiðingu vinnustaðanáms og upptöku framhaldsskólaskírteinis eftir að nemendur hafa lokið ákveðnum fjölda eininga. Haldið skal áfram þeirri vinnu sem hafin er og árangur hennar metinn með tilliti til árangurs kynjanna.

Unnið skal markvisst að því að bæla niður staðlaðar ímyndir um viðhorf kynjanna til heimanáms og gildi góðs námsárangurs og fá sterka nemendur og nemendur sem eru áberandi í félagslífinu í lið með starfsfólki skólans. Þó svo að ástæður brottfalls séu margvíslegar er algengt að drengir hverfi frá námi vegna þess að þeim leiðist námið eða að þeir eigi í peningavandræðum. Því skal leitast við að gera námið áhugavert og eftirsóknarvert fyrir bæði kynin, m.a. með fjölbreyttum kennsluháttum, auk þess sem nemendur skulu ítrekað vera fræddir um faglegt gildi menntunar og hagnýtingu hennar. Jafnframt skal tryggja að nemendur fái fjármálafræðslu, t.a.m. fræðslu um kostnað við bílalán og fleira þar sem strákar fremur er stúlkur taki þessi lán og auki því líkur á brottfalli úr skóla.

Brottfall skal mælt og kynjahlutfallið kannað í lok hverrar annar og niðurstöður birtar í gæðaskýrslu annarinnar og þannig fylgst með hvort árangur náist.

V. Nemendur á opinberum vettvangi

Gæta skal þess að nemendur af báðum kynjum komi fram fyrir hönd skólans og einnig skulu nemendur af báðum kynjum sitja í stjórn nemendafélagsins hverju sinni. Í nemendakeppnum á borð við Gettu betur og Morfís skal hafa keppendur af báðum kynjum í liðinu og viðburðir og félagslíf nemenda skal skipulagt með virðingu og jafnrétti kynjanna í huga.

VI. Kynferðisleg áreitni og einelti

Vellíðan nemenda í skólanum er mikilvægur þáttur í gæðamarkmiðum hans og er kynferðisleg eða kynbundin áreitni ekki liðin í VMA. Í skólanum er lögð áhersla á að innan hans ríki gagnkvæm virðing karla og kvenna meðal starfsmanna skólans og nemenda. Í eineltisáætlun skólans eru leiðbeiningar um vinnulag í málum er varða kynferðislega áreitni. Í þjónustukönnun sem gerð er annað hvert ár skal spyrja hvort nemendur hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

 

Eftirfylgni

Jafnréttisáætlun þessi skal kynnt sérstaklega fyrir starfsfólki og nemendum skólans og starfsfólki gert að hafa innihald hennar að leiðarljósi í starfi sínu og samskiptum sín á milli sem og við nemendur skólans. Þannig skal leitast við að samþætta áætlunina menningu skólans en skólameistari ber ábyrgð á að áætluninni sé fylgt og skal hún endurskoðuð á minnst þriggja ára fresti samkvæmt 18. grein laga um jafnan rétt kynjanna. Skólameistari skal minna starfsfólk á inntak áætlunarinnar og benda því á leiðir í átt að frekara jafnrétti innan veggja skólans. Telji starfsmaður eða nemandi að jafnrétti sé brotið í VMA skal hann hafa samband við skólameistara, trúnaðarmenn starfsmanna eða hagsmunaráðsfulltrúa nemenda sem finna skal hverju máli farveg. Skólameistari skal tryggja að áætluninni verði framfylgt, og að hún verði uppfærð með tilliti til 18. gr. laga nr. 10/2008.

Jafnréttisáætlun VMA er hluti af skólanámsskrá skólans.

 

 

Akureyri 29. febrúar 2012

 

Sigríður Huld Jónsdóttir

Skólameistari VMA

 

 

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Hringteig 2
600 Akureyri
Sími 464 0300 / Fax 464 0301
Kt. 531083-0759
vma@vma.is

Skrifstofa VMA
er opin alla virka daga frá kl. 08:00 - 15:00