Fara í efni

VMA fær styrk vegna Erasmus plus þróunarverkefnis

Samningur í höfn. Fulltrúar RANNÍS, MATÍS og VMA.
Samningur í höfn. Fulltrúar RANNÍS, MATÍS og VMA.

Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur fengið afhentan samning og verið styrktur til þess að stýra alþjóðlegu þróunarverkefni sem kallast "WorkQual - Workmentoring within a Quality Management System". Erasmus plus áætlun Evrópusambandsins veitir peningum í margvísleg verkefni, meðal annars á sviði menntunar, íþrótta og tómstundastarfs.
Erasmus plus áætlunin tekur við af þeim menntaáætlunum sem hafa kallast Comenius (um bóknám), Leonardo da vinci (starfsmenntaáætlun) og fleiri.

VMA stýrði Workmentor verkefninu innan Leonardo da vinci áætlunarinnar árin 2011 - 2013.  Workmentor verkefnið fól í sér að þróa og prufukeyra námskeið fyrir starfsfóstra á vinnustöðum.

Þann 7. október sl. fékk VMA afhentan samning um nýtt alþjóðlegt þróunarverkefni innan Erasmus plus áætlunarinnar, sem er menntaáætlun Evrópusambandsins á Íslandi.  Verkefnið kallast WorkQual - Workmentoring within a Quality Management System og verður unnið árin 2014 - 2016. Samstarfsaðilarnir eru VMA og skólar og ráðgjafar í Noregi, Finnlandi, Hollandi, Frakklandi og Englandi.  WorkQual verkefnið felur í sér að taka saman og staðla það nauðsynlegasta sem þarf að gera og hafa tilbúið þegar skólar senda nemendur í vinnustaðanám.  Til dæmis má nefna að sjúkraliðanemar í VMA fara í vinnustaðanám á sjúkrastofnunum, bæði innanlands og utanlands.  Aðrar námsbrautir senda nemendur ýmist í stuttan tíma til að kynnast vinnustöðum eða að nemar fara á lengri námssamning í iðngreinum. 

RANNÍS sér um Erasmus áætlunina á Íslandi.  Þangað koma peningar sem veitt er áfram í styrki.  Styrkurinn sem VMA stýrir er 187.000 evrur eða um það bil 28,5 milljónir króna.  Þessi upphæð skiptist milli allra þátttakenda en VMA fær 37.000 evrur eða um það bil 5,6 milljónir kr. Fjármunirnir verða nýttir til að greiða ferðakostnað á fundi í verkefninu, vinnu við verkefnisstjórn og vinnu við að útbúa gögnin sem verkefnið snýst um og til að greiða ýmsan annan kostnað.

Hér má sjá heildarúthlutun Erasmus Plus að þessu sinni hér á landi, samtals 336 milljónir króna, til 20 skóla, fyrirtækja og stofnana.

VMA tekur þátt í fleiri nýjum Erasmus plus verkefnum.  Eitt þeirra kallast Completing Secondary Education sem er stýrt af norskum skóla og stendur verkefnið í þrjú ár.  Það fjallar um leiðir sem skólar fara til að stuðla að því að fleiri nemendur ljúki námi með útskrift, að minnka brottfall úr námi.  Þátttakendur eru VMA og skólar í Noregi, Hollandi, Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi.  Hlutur VMA í þessu verkefni er um það bil 37.000 evrur eða 5,6 milljónir kr á þessum þrem árum.

Enn eitt nýja verkefnið innan Erasmus plus áætlunarinnar er GreenPOP.  Þátttaka VMA kemur til vegna þess að VMA sér um að halda námskeið fyrir starfsfóstra í framhaldi af Workmentor verkefninu.  Verkefnið snýst um lífræna ræktun í Makedóníu og þar kemur inn umfjöllun um hlutverk starfsfóstra. Verkefnið stendur í tvö ár, 2014 - 2016.  Samstarfsaðilar eru nokkrir aðilar í Makedóníu, Hollandi og á Spáni.  Hlutur VMA er 8.000 - 10.000 evrur eða um það bil 1,4 milljónir kr. en ekki er ennþá búið að ganga frá verkefninu að fullu.

Til viðbótar tekur VMA þátt í ýmsum Nordplus verkefnum og samstarfi um að senda nemendur í vinnustaðanám til ýmissa landa.  Sjá hér.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Margrét Jóhannsdóttir, sérfræðingur á mennta- og menningarsviði RANNÍS, Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs RANNÍS, Björk Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri VMA, Jóhannes Árnason, kennari og tengiliður erlendra samskipta í VMA og Franklín Georgsson, sviðsstjóri mælinga og miðlunar hjá MATÍS.