Fara í efni

Viðurkenning fyrir fallega og vel hirta lóð

Viðurkenningarskjalið frá Akureyrarbæ.
Viðurkenningarskjalið frá Akureyrarbæ.

Á Akureyrarvöku sl. laugardag veitti Akureryrarbær VMA viðurkenningu fyrir fallega og vel hirta lóð. Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari, segir þessa viðurkenningu afar ánægjulega og um leið hvetji hún til þess að halda áfram á sömu braut, að fegra umhverfi skólans og halda lóðinni vel hirtri og fallegri, hér eftir sem hingað til.

Í umsögn Akureyrarbæjar með viðurkenningunni segir: „Á undanförnum árum hefur verið unnið við að ganga frá lóðinni, breyta og bæta og er hún orðin hin glæsilegasta. Má þar nefna fallegan inngarð, umhverfi norðurinngangs og kennarainngangs að austan, þar sem mikil áhersla er lögð á gott aðgengi og aðstöðu fyrir hjólafólk, snyrtiilegt gámasvæði við norðausturhorn húss og smekklegan frágang á bílastæðum.“

Sigríður Huld segir að margir hafi í gegnum tíðina lagt hönd á plóg við lóðina en þó sé vert að tilgreina sérstaklega Hafberg Svansson, umsjónarmann fasteigna, Dragan Pavlíca þjónustuliða , Einar Gylfason þjónustuliða og aðra þjónustuliða við skólann. Aðrir starfsmenn skólans hafi einnig lagt hönd á plóg við að halda lóðinni snyrtilegri.

Hafberg Svansson segir viðurkenninguna ánægjulega. Töluvert hafi verið unnið í lóðinni á undanförnum árum. Þeirri vinnu sé ekki lokið, t.d. sé áður en langt um líður stefnt  að framkvæmdum við lóðina sunnan skólans.