Fara í efni

Vélstjórnarnemar kynntu lokaverkefni sín

Vélstjórnarnemarnir með kennurum sínum.
Vélstjórnarnemarnir með kennurum sínum.

Fastur liður á síðustu önn vélstjórnarnema er að vinna lokaverkefni að eigin vali og kynna það í annarlok. Í gær var komið að kynningu nemendanna þrettán – sex tveggja manna verkefni og eitt eins manns verkefni. Verkefnin eru afar fjölbreytt og af ýmsum toga.

1. Færanlegur búnaður til hreinsunar á „vaacum black water“ kerfum um borð í fiskiskipum. Hákon Valdimarsson og Ingólfur Þór Ævarsson.
Um borð í fiskiskipum eiga rör það til að stíflast vegna svokallaðs pissusteins og þá eru góð ráð dýr. Til þessa hafa menn brugðist við með því að skipta um rör sem kostar umtalsverða fjármuni en í verkefni þeirra Hákons og Ingólfs Þórs er sjónum beint að því að hreinsa rörin með þar til gerðri dælu og hreinsiefnum.

2. Breytingar á Fóðurstöð Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Sigurður Snorri Gunnarsson og Haukur Ingi Sigurðsson.
Verkefnið gekk út  á að nútímavæða innmötun á mjöli í Fóðurstöð KS en núverandi kerfi hefur verið notað síðan 1980. Í stórum dráttum gengur hugmynd Sigurðar Snorra og Hauks Inga út á meiri sjálfvirkni þar sem notast er við svokallað vaacum-kerfi.

3. Möguleikar á nýtingu vindorku með litlum vindmyllum til rafmagnsframleiðslu. Orri Fannar Jónsson og Stefán Hermannsson.
Í verkefninu horfðu þeir til vistvænnar orku og stöldruðu við uppsetningu á vindmyllu og var fyrirmyndin 700 w skosk vindmylla. Fljótlega komust þeir að því að uppsetning á svo vindmyllu fyrir t.d. sveitabýli myndi ekki hafa í för með sér mikinn fjárhagslegan ávinning en hins vegar mætti hugsa sér þennan kost fyrir t.d. sumarbústaði eða veiðihús.

4. Breyting á bandsög byggingadeildar VMA þannig að sögin nýtist betur til sögunar á klæðningu. Sigurður Svansson og Ísleifur Gunnarsson.
Halldór Torfi Torfason brautarstjóri byggingadeildar VMA leitaði eftir lausn þeirra Sigurðar og Ísleifs á því hvernig mætti breyta bandsög byggingadeildar þannig að hún nýttist betur til að saga klæðningu en ýmis vandamál höfðu komið upp í því sambandi. Eftir töluverða yfirlegu fundu þeir félagarnir bestu leiðina út úr vandamálinu og því skilaði verkefnið tilætluðum árangri.

5. Virkjun árinnar Hrafnkelu til nýtingar á bænum Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Arnar Logi Þorgilsson og Þorgils Snorrason.
Í Vaðbrekku í Hrafnkelsdal er þegar byrjað að byggja upp ferðaþjónustu og stefnt er að frekari uppbyggingu á því sviði. Einniug er horft til uppbyggingu vélaverkstæðis þar. En ein af forsendunum er þriggja fasa rafmagn í stað eins fasa rafmagns. Verkefnið gekk út á að kanna möguleika á gerð virkjunar í ánni Hrafnkelu sem rennur í Hrafnkelsdal til rafmagnsframleiðslu. Í stuttu máli sagt telja þeir Arnar Logi og Þorgils að bygging virkjunar sé vel gerleg og arðbær framkvæmd sem myndi borga sig upp á tiltölulega skömmum tíma. Hins vegar yrði stofnkostnaður töluverður en viðhaldskostnaður lítill

6. Hönnun á fjarstýrðum skriðdreka til ýmissa nota. Bernharð Anton Jónsson og Hólmar Árni Erlendsson.
Í verkefninu hönnuðu Bernharð Anton og Hólmar Árni lítinn fjarstýrðan skriðdreka og sýndu í kynningunni hugmyndina að baki hönnuninni og einnig sýndu þeir myndband þar sem hönnunin var sýnd lið fyrir lið.

7. Stjórnun á búnaði til þess að halda flugeldasýningu. Stefán Jón Pétursson.
Stefán hefur annast flugeldasýningar fyrir björgunarsveit Landsbjargar í hans heimasveit, Mývatnssveit og hefur sárlega vantað stýringarbúnað. Verkefni hans gekk því út á að bæta úr þessu og hanna stýribúnað fyrir flugeldasýningarnar.