Fara í efni

Fjölmennum í vorhlaupið á fimmtudaginn!

Karen Alfa Kolbeinsdóttir og Ágúst Örn Víðisson.
Karen Alfa Kolbeinsdóttir og Ágúst Örn Víðisson.

Næstkomandi fimmtudag, 16. apríl kl. 17.30, verður vorhlaup framhaldsskólanna á Akureyri VMA/MA. Tvær vegalengdir verða í boði – annars vegar 5 km og hins vegar 10 km og verður hlaupið frá Menningarhúsinu Hofi. Veðurspáin er bara ljómandi góð fyrir fimmtudaginn og því ætti veðrið ekki að hamla þátttöku og að góður árangur náist. Meðal þeirra nemenda í VMA sem eru ákveðnir í að taka þátt á fimmtudaginn eru Ágúst Örn Víðisson og Karen Alfa Kolbeinsdóttir.

Ágúst Örn er fæddur 1997 og er duglegur að hreyfa sig, enda á fullu að spila fótbolta í 2. flokki KA í knattspyrnu. Hann er harðákveðinn í því að drífa sig í vorhlaupið nk. fimmtudag. „Já, ég ætla að gera það. Ég hef svo sem ekki verið að æfa hlaup en hins vegar hleypur maður auðvitað mikið í fótboltanum og því er bara fínt að taka þátt í svona langhlaupi,“ segir Ágúst Örn en hann var í hópi VMA-nema sem fóru suður yfir heiðar sl. haust og tóku þar þátt í Flensborgarhlaupinu. Ágúst Örn stóð sig prýðisvel þar og lenti í þriðja sæti í sínum flokki. Einnig segist hann hafa hlaupið á föstudaginn langa í 12 km hlaupi í Eyjafjarðarsveit, þar sem hann býr, og þá vegalengd hljóp hann á um 55 mínútum sem verður að teljast fínn tími. „Mér finnst ekkert erfitt að hlaupa svona vegalengd, ekki þegar maður á annað borð er í formi. Ég held að langhlaup sé fyrst og fremst spurning um hugarfar,“ segir Ágúst Örn og hvetur sem flesta að taka þátt í vorhlaupinu nk. fimmtudag.

Karen Alfa er ári yngri en Ágúst Örn og hóf nám í VMA sl. haust. Hún spilaði upp alla yngri flokka KA í knattspyrnu og var í Íslandsmeistaraliði KA í 3. flokki B-liða sl. sumar. Hún lagði fótboltaskónum eftir sumarið þegar hún fór í framhaldsskóla og segist ekki síðan stunda reglulega neina ákveðna íþróttagrein – en hins vegar fari hún reglulega í ræktina og haldi sér þannig í formi.  Karen Alfa var eins og Ágúst Örn í hópi þeirra nemenda sem tók þátt í Flensborgarhlaupinu sl. haust og lenti þar í þriðja sæti í sínum flokki. Hún ætlar, eins og Ágúst Örn, að taka þátt í vorhlaupinu á fimmtudaginn og hvetur samnemendur sína og aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Í vorhlaupinu á fimmtudaginn verður keppt í flokkum 15 ára og yngri, framhaldsskólanemenda og opnum flokki. Skráning í síðastnefnda flokkinn er á hlaupasíðunni www.hlaup.is og þar er einnig hægt að skrá í flokk 15 ára og yngri. Nemendur í VMA og MA geta skráð sig á skrifstofum skólanna og þar fá þeir afhent númer í hlaupið gegn 500 króna skráningargjaldi.  Grunnskólanemar, 15 ára og yngri, geta einnig skráð sig á skrifstofum framhaldsskólanna og fengið þar númer gegn 500 króna skráningargjaldi. Í opnum flokki er skráningargjaldið 1500 krónur.