Fara í efni

Stefni á atvinnumennsku

Aron Dagur Birnuson í landsliðstreyjunni.
Aron Dagur Birnuson í landsliðstreyjunni.

„Ég er mjög einbeittur í að ná árangri í fótboltanum og minn draumur er að verða atvinnumaður,“ segir Aron Dagur Birnuson, sextán ára nýnemi á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA og markvörður U-17 landsliðs Íslands í knattspyrnu.

Aron Dagur var í eldlínunni í liðinni viku með U-17 landsliðinu þegar liðið mætti Kasakstan, Grikklandi og Danmörku í forkeppni Evópumóts landsliða í þessum aldursflokki. Sigur vannst á Kasakstan, jafntefli gegn Grikkjum en liðið tapaði fyrir Dönum. Niðurstaðan þriðja sætið í riðlinum sem að óbreyttu dugar ekki til þess að liðið komist áfram í milliriðil. Aron Dagur vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína og í leiknum gegn Grikkjum var hann ásamt öðrum leikmanni íslenska liðsins valinn besti maður liðsins. „Auðvitað er ég svekktur að við skyldum ekki komast áfram en þetta fer í reynslubankann. Þarna vorum við m.a. að spila við marga stráka sem spila í stóru klúbbunum í bæði Grikklandi og Danmörku,“ segir Aron Dagur.

Fótbolta segist Aron Dagur hafa stundað frá fjögurra ára aldri. Hann býr á Brekkunni og er því í KA. „Til að byrja með var ég ekki í markinu. En ætli ég hafi ekki verið ellefu eða tólf ára gamall þegar ég byrjaði að spila sem markmaður. Fyrst kom þetta þannig til að vinur minn sem var alltaf í marki meiddist og þá var ég settur í markið. Síðan var ekki aftur snúið. Þetta er skemmtileg staða að spila en henni fylgir vissulega mikil ábyrgð og það á vel við mig, ég vil gjarnan taka ábyrgð,“ segir Aron Dagur og upplýsir að hans helstu fyrirmyndir séu markmenn stórliðanna Bayern Munchen og Barcelona.

„Það er auðvitað stefnan að komast einhvern tímann í atvinnumennsku en til þess að það megi verða þarf ég að æfa mig mjög vel og vera einbeittur. Sandor Matus hefur verið minn helsti þjálfari og ég á honum mikið að þakka. Síðan læri ég mikið af meistaraflokksmarkmönnum KA, Fannari Hafsteinssyni og Srdjan Rajkovich. Einnig hefur Túfa, aðalþjálfari meistaraflokks KA, kennt mér mikið og almennt vil ég segja að allir þjálfarar yngri flokka KA hafa unnið frábært starf, sem sýnir sig í einstaklega góðum árangri hjá yngri flokkum félagsins.“

Aron Dagur segir að hann sé kominn yfir það að vera taugatrekktur þegar hann fer í leiki. „Nei, ég er mjög rólegur í leikjum. Í mínum huga er alveg ljóst að það skiptir öllu máli til þess að ná árangri að hausinn sé í lagi. Núna þegar löngu keppnistímabili er að ljúka ætla ég að hvíla mig vel áður en ég byrja síðan æfingar af fullum krafti aftur. Í vetur verður meiri áhersla á að bæta líkamlegan styrk og tækni,“ segir Aron Dagur sem nú er genginn upp úr þriðja flokki KA í annan flokk félagsins. Og hann segir ekkert launungarmál að hann hafi í framtíðinni mikinn metnað til þess að verða aðalmarkvörður meistaraflokks KA.

Sem fyrr segir er Aron Dagur á fyrsta ári á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA. Honum líst mjög vel á námið og segir takmarkið að ljúka stúdentsprófinu.