Fara í efni

Skráningarfrestur í Sturtuhausinn til mánudagskvölds

Elísa Ýrr Erlendsdóttir syngur til sigurs í fyrra.
Elísa Ýrr Erlendsdóttir syngur til sigurs í fyrra.

Eins og kom fram í viðtali við Kristján Blæ Sigurðsson, formann Þórdunu, hér á heimasíðunni sl. þriðjudag, verður Sturtuhausinn – söngkeppni VMA 2017 fyrsti stóri viðburður annarinnar í félagslífinu, en hann verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi fimmtudagskvöldið 26. janúar nk. Nú stendur yfir skráning þátttakenda í keppnina og lýkur henni kl. 20:00 nk. mánudag, 16. janúar. Skráningar sendist á Pétur Guðjónsson, viðburðastjóra VMA, á netfangið petur@vma.is.

Stefnt er á glæsilegan Sturtuhaus, glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Nemendur fá nú tækifæri til þess að renna sínu atriði tvisvar á æfingum áður en stigið er á svið en til þessa hefur verið boðið upp á eitt rennsli. Einnig verður lagt meira upp úr myndatökum þátttakenda og kynningarmyndböndum, sem síðan verða sýnd á keppninni í Hofi.  

Kynnar á Sturtuhausnum verða þeir Nökkvi Fjalar og Egill Ploder úr Áttunni. Í dómnefnd verða starfandi tónlistarmenn í fremstu röð nú um stundir – Salka Sól Eyfeld úr hljómsveitinni Amabadama, Arnar Freyr úr Úlfur Úlfur og Valdimar Guðmundsson, söngvari hljómsveitarinnar sem við hann er kennd, Valdimar.