Fara í efni

Skólablað VMA gefið út eftir langt hlé

Frá vinstri: Baldur, Haukur, Stefán og María.
Frá vinstri: Baldur, Haukur, Stefán og María.

Í dag kemur út nýtt tölublað af skólablaði VMA – Mjölni. Útgáfa blaðsins sætir nokkrum tíðindum því eftir því sem næst verður komist hefur skólablað ekki verið gefið út í VMA í fimmtán ár. Blaðið er 52 síður í A4  broti og er prentað í 800 eintökum. Útgáfan er fjármögnuð með auglýsingum og er blaðinu dreift ókeypis.

Nokkrir áhugasamir nemendur í VMA höfðu frumkvæði að útgáfu blaðsins. Þeir fengu hugmyndina og létu ekki þar við sitja, heldur fylgdu henni alla leið og nú er blaðið komið út.

Baldur Sverrisson er ritstjóri blaðsins og auk hans eru í ritnefnd Stefán Jón Pétursson, Haukur Smári Gíslason, Þórdís Alda Ólafsdóttir og María Katrín Helgadóttir. Baldur segir að þetta hafi verið stórt verkefni. "Já, þetta var rosaleg vinna, ekki síst vegna þess að við gátum ekki byggt á neinum upplýsingum um ýmislegt varðandi útgáfuna frá eldri nemendum. Þekkingin var einfaldlega ekki til staðar vegna þess að skólablað hefur ekki verið gefið út í VMA síðan árið 2000. Uppsetning blaðsins var erfiðasti hlutinn og ég veit að á lokasprettinum voru strákarnir að til klukkan sex um morguninn aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku. En þrátt fyrir að þetta hafi verið gríðarleg vinna hefur þetta samt verið rosalega gaman og við höfum aflað okkur mikillar og góðrar reynslu," segir Baldur Sverrisson.

Stefán Jón Pétursson er afar ánægður með að þessum áfanga hafi verið náð og nú sé nauðsynlegt að halda áfram á sömu braut. „Og við teljum líka mikla þörf á því að útbúa kynningarblað til þess að dreifa til nýnema í upphafi hvers skólaárs um félagslífið í skólanum og því blaði þyrfti líka að dreifa til nemenda á grunnskólakynningunni á haustönn,“ segir Stefán Jón.

Það er ekki lítið mál að gefa út blað. Að sjálfsögðu þarf að skrifa og safna efni, afla auglýsinga, taka ljósmyndir og setja blaðið síðan upp og búa til prentunar. Stefán Jón segir ekkert launungarmál að þetta hafi verið mikil vinna og ritnefndin hafi lítið annað gert – utan skólatíma – síðustu tvo mánuði. „Vetrarfríið hjá okkur fór algjörlega í blaðaútgáfuna,“ segir Stefán Jón en hann hefur haldið utan um fjármálin auk þess að setja blaðið upp. „Uppsetning á svona blaði var ný áskorun fyrir mig. Ég tók mig til og lærði á forrit til þess að brjóta blaðið um og það gekk bara ágætlega. Og það er líka gaman að segja frá því að við hönnuðum auglýsingar í blaðið fyrir Brynjuís, Greifann, Joe‘s og Imperial og eigendur þessara fyrirtækja voru hæstánægðir með þær,“ segir Stefán Jón og bætir við að hér með sé auglýst eftir áhugasömu fólki til þess að halda þessari blaðaútgáfu áfram næsta vetur. Nú hafi teningnum verið kastað – eftir langt hlé – og nauðsynlegt sé að halda útgáfunni reglulega áfram.

Í þessu nýja tölublaði Mjölnis er meðal annars fjallað um allar brautir skólans, pistlar frá kennurum, sagt frá Söngkeppni VMA, fjallað um ferð nemenda í VMA til Litháen, fjallað út útskriftarferð vélstjórnarnema til Mexíkó að ógleymdri hvatningarumfjöllun um árshátíð nemenda VMA næstkomandi föstudagskvöld. 

Á forsíðu blaðsins er skemmtileg útfærsla Kára Ármannssonar, nemanda á listnámsbraut, á Þórslíkneskinu.

Á meðfylgjandi mynd eru fjórir af fimm ritnefndarmönnum; Baldur Sverrisson, Haukur Smári Gíslason, Stefán Jón Pétursson og María Katrín Helgadóttir. Sú fimmta í ritnefndinni, Þórdís Alda Ólafsdóttir, er nú stödd í Litháen í námsferð nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut.