Fara í efni

Skemmtilegasta sem ég geri

Eyþór Daði Eyþórsson.
Eyþór Daði Eyþórsson.

Á morgun, laugardaginn 18. febrúar, kl. 16 verður frumsýnt í stóra sal Menningarhússins Hofs á Akureyri nýtt íslenskt fjölskylduleikrit, Núnó og Júnía, eftir Sigrúnu Huld Skúladóttur og Söru Martí Guðmundsdóttur. Sara leikstýrir verkinu. Þrír aðalleikarar eru í sýningunni og til viðbótar koma þar fjölmargir statistar við sögu – þar á meðal fimm nemendur úr VMA; Eyþór Daði Eyþórsson, Mateusz Swierczewski, Freystinn Sverrisson, Arndís Eva Erlingsdóttir og Elísa Ýrr Erlendsdóttir.

Eyþór Daði, sem er á fyrsta ári á félagsfræði- og hugvísindabraut í VMA, segir að því verði ekki neitað að æfingatíminn hafi verið nokkuð strembinn, dagarnir hafi verið langir og því hafi verið nauðsynlegt að nýta tímann vel. En fyrst og fremst hafi þetta verið afar skemmtilegt og þroskandi – „geðveikt gaman“, eins og hann orðar það.

Þrátt fyrir að vera sextán ára gamall er Eyþór Daði fjarri því að vera nýgræðingur í leiklistinni. Hann tók til dæmis þátt í uppfærslu Menningarfélags Akureyrar í fyrra á Pílu Pínu, sem Sigrún Huld og Sara Martí skrifuðu einnig, og þá annaðist hann sýningarstjórn á uppfærslu Leikfélags VMA á Litlu hryllingsbúðinni á haustönn. Og á sínum tíma stofnaði hann leikhóp ásamt fleirum sem hefur verið nefndur „Leikhópurinn næsta leikrit“, sem þegar hefur sett upp þrjú leikrit sem Eyþór Daði tók þátt í að semja ásamt félögum sínum.

„Að leika eða taka þátt í einhverju sem tengist leiklist er það skemmtilegasta sem ég geri og þetta er eitthvað sem ég stefni eindregið á að vinna að í framtíðinni, hvort sem ég fer í Listaháskólann eða eitthvað út fyrir landssteinana,“ segir Eyþór Daði. „Við vorum með fyrsta rennsli á öllu verkinu sl. þriðjudag og það gekk bara ljómandi vel. Ég mæli eindregið með þessari sýningu, hún er mjög skemmtileg.“

Efni verksins er eitthvað á þessa leið: Núnó og Júnía gerist í fjarlægri framtíð í landinu Kaldóníu. Hinn ungi Núnó er mesta afreksmanneskjan í Kaldóníu og fyrirmynd allra íbúa landsins í hreysti og dugnaði. Mottó Núnós er að gera betur, gera enn betur og toppa það svo. Í Kaldóníu er ekkert pláss fyrir þá sem ekki ekki standa sig og falla ekki í mótið. Einn daginn hrynur veröld Núnós þegar hann uppgötvar að hluti af honum er orðinn ósýnilegur! Hann hefur veikst af "þokunni", hinni illvígu plágu sem ógnar Kaldóníu og íbúum þess. Núnó verður að leyna því að hann sé kominn með "þokuna" því annars verður hann numinn á brott af þokusveitinni. Núnó hefst handa við að leita sér lækninga áður en hann verður "þokunni" að bráð og verður alveg ósýnilegur!  Hjálpin berst honum úr óvæntri átt og ferðalagið verður til þess að Núnó kynnist sjálfum sér og heiminum alveg upp á nýtt.