Fara í efni

Nýtist mér vel í búskapnum

Aron Snær Kristjánsson.
Aron Snær Kristjánsson.

Þessa síðustu kennsludaga fyrir jól eiga nemendur að vonum annríkt við verkefnaskil af ýmsum toga, bæði í bóknáms- og verknámsdeildum, enda aðeins þrír kennsludagar eftir af önninni. Þegar litið var inn á málmiðnaðarbrautina fyrir helgi voru nemendur í grunndeild málmiðnaðar og rafvirkjanemar á fullu við að ganga frá lokaverkefnum sínum á þessari önn og það var ekki laust við að eilítill spenningur og jafnvel stress svifi yfir vötnum.

Í grunndeild málmiðnaðar hafa nemendur m.a. smíðað hamar í vetur sem er komið fyrir í statífi og skal smíðinni ljúka núna fyrir annarlok, enda er mat á henni hluti af prófeinkunn í verklega hlutanum. Nemendur í stálsmíði, sem eru lengra komnir, hafa m.a. smíðað þessi handhægu ferðagrill í vetur. Þetta á eftir að nýtast vel á næsta grillsumri.

Einn þeirra nemenda sem voru á fullu að ljúka sinni smíði er Aron Snær Kristjánsson frá Árlandi í Kinn í Suður-Þing. Hann er sextán ára, var í grunnskóla á Stórutjörnum og kom síðan sl. haust í VMA í grunndeild málmiðnaðar. Hann segir þetta námsval enga tilviljun, enda sé þetta á hans áhugasviði, hann sé með tækjadellu! „Ég sé fyrir mér að þetta eigi eftir að nýtast mér mjög vel í búskapnum en ég hef verið ákveðinn í því að fara í búskap síðan ég var fimm ára gamall,“ segir Aron Snær, en á Árlandi búa foreldrar hans blönduðu búi, með um 30 kýr og 150 fjár.

Aron Snær er einn fimm systkina frá Árlandi, hann á tvær eldri systur, einn eldri bróður og einn yngri bróður. Önnur systirin stundar sömuleiðis nám í VMA í vetur, er á listnámsbraut.