Fara í efni

Námið í VMA nýtist mér vel á hverjum degi

Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri hjá RPC Group.
Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri hjá RPC Group.

„Ég á mjög góðar minnningar úr Verkmenntaskólanum og námið nýttist mér mjög vel á þeirri leið sem ég fór síðan og sannast sagna er það ennþá að nýtast mér í mínu daglega starfi,“ segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri hverfisteypuverksmiðja breska fyrirtækisins RPC Group, móðurfélags Sæplasts á Dalvík.

Daði höf störf hjá Sæplasti á Dalvík haustið eftir grunnskóla, 1. október 1985, þá aðeins fimmtán ára gamall. Haustið 1986 fór hann í Verkmenntaskólann og var þar í eitt ár en tók sér þá pásu og fór aftur að vinna hjá Sæplasti. Innritaðist síðan aftur í VMA á viðskiptabraut og útskrifaðist 1992. „Mér leist á þessum tíma best á að fara á viðskiptabrautina því ég taldi hana veita mér bestan undirbúning fyrir háskólanám og hún myndi halda mestu opnu fyrir mig með frekara nám. Á þessum tíma kenndu okkur til dæmis Benedikt Barðason, nú aðstoðarskólameistari VMA. Hann er mér eftirminnilegur því hann byrjaði allar kennslustundir á að varpa fram spurningu sem hann bað okkur að svara og hét því að ef einhver okkar vissi svarið myndi viðkomandi fá frí. Það þarf ekki að orðlengja það að þennan vetur fékk enginn frí í tímum hjá Bensa! Páll Hlöðvesson kenndi okkur stærðfræði og sögu og félagsgreinarnar kenndu okkur Albert heitinn Sölvason og þau hjón Þröstur og Aðalheiður.
Þetta var mjög skemmtilegur tími. Skólinn var góður en ég skal viðurkenna að ég man meira eftir félagslífinu en sjálfu náminu. Ég fór á fullt í félagslífið – var til dæmis formaður nemendafélagsins á þriðja ári. Á þessum tíma var nemendafélagið nafnlaust en við vildum nefna það eitthvað og fengum hugmyndir að nöfnum sem nemendur kusu síðan á milli.  Nafnið Mjölnir fékk mest fylgi en þar sem svo mörg félög og klúbbar báru þetta nafn ákváðum við að nefna nemendafélagið Þórdunu,“ rifjar Daði upp.

Við útskrift úr VMA segist Daði hafa verið ákveðinn í því hvert hann vildi stefna. „Já, ég hafði lagt línurnar og það er ekkert launungarmál að ég horfði til framleiðslustjórnar í Sæplasti, á mínum gamla vinnustað. Ég ákvað því að fara í iðnrekstrarfræði í Tækniskólanum í Reykjavík og þar var ég í tvö og hálft ár. Skólinn var í samstarfi við Háskólann í Álaborg í Danmörku og úr varð að ég innritaði mig í meistaranám í vélaverkfræði þar og fékk námið mitt í Tækniskólanum metið þannig að ég fór beint inn á annað ár í Álaborg, sem þýddi að ég gat lokið náminu árið 2000 á fjórum árum í stað fimm.

Daði hafði tekið námsverkefni í Sæplasti námi sínu í Álaborg og þegar hann síðan lauk náminu bauðst honum staða framleiðslustjóra í Sæplasti. Árið 2003 varð hann framkvæmdastjóri Sæplasts og Promens á Dalvík og frá árinu 2012 var hann einnig verið yfirmaður stórumbúðasviðs Promens og síðar RPC. Fyrr á þessu ári hætti Daði sem framkvæmdastjóri Sæplasts á Dalvík en tók þá að sér framkvæmdastjórn tíu hverfisteypufyrirtækja RPC, sem eru staðsett í Evrópu og Norður-Ameríku. Daði verður eftir sem áður staðsettur í sínum heimabæ, Dalvík. Hjá þessum tíu hverfisteypufyrirtækjum starfa um 500 manns og eru ker um 30% af framleiðslunni.

„Þegar ég horfi til baka vil ég halda því fram að ég hafi valið rétta námsleið og námið í VMA nýtist mér vel enn þann dag í dag. Þar lærði maður grunnatriðin í t.d. bókhaldi og bókfærslu og þessi grunnskilningur í debet og kredit nýtist vel í fyrirtækjarekstri,“ segir Daði og fagnar því að hafa fengið tækifæri til þess að leggja sínum gamla skóla lið með valgreiðslukröfunni sem hann fékk frá Hollvinasamtökum VMA.