Fara í efni

Minningarorð til Brynjars Inga Skaptasonar

Brynjar Ingi Skaptason
Brynjar Ingi Skaptason

Í dag var haldin minningarathöfn Brynjars Inga Skaptasonar eða Billa eins og hann var nú oftast kallaður hér í VMA. Brynjar var einn af fyrstu kennurum skólans en hann var hér stundakennari haustið 1984 þegar VMA hóf göngu sína.

Brynjar var fæddur 8. júní 1945 og lést á heimili sínu 21. júní 2015. Á minningarathöfn sem haldin var í Háskólanum á Akureyri í dag 3. júlí, flutti Hálfdán Örnólfsson kennari og félagi Brynjars minningarorð og höfum við fengið leyfi Hálfdáns til að birta þau hér. Starfsfólk VMA kveður góðan vin og samstarfsmann.

Kæru vinir. Ég ætla að fjalla hér aðeins um feril Brynjars sem kennari og skólastjórnandi.

Ég kynntist Brynjari fyrst árið 1984 þegar við komum til starfa við Verkmenntaskólann á Akureyri, sem þá var nýstofnaður. Brynjar hafði þá verið stundakennari við Iðnskólann frá árinu 1975 meðfram sínu aðalstarfi sem skipaverkfræðingur. Hann hélt áfram sem stundakennari við Verkmenntaskólann fram til vors 1989 en frá haustinu 1989 var hann ráðinn í fulla stöðu við skólann og varð þá jafnframt kennslustjóri á tæknisviði. Brynjar var kennslustjóri til ársins 1999 og eftir það starfaði hann í nokkur ár sem námsráðgjafi til hliðar við kennsluna. Brynjar lét af störfum sem kennari við Verkmenntaskólann um mitt ár 2014 þannig að ferill hans sem kennari og skólastjórnandi spannar næstum því fjóra áratugi þegar stundakennslan við Iðnskólann er talin með.

Helstu kennslugreinar Brynjars voru eðlisfræði, ýmsar sérgreinar á tæknisviði og svo stærðfræði. Nemendur Brynjars voru í góðum höndum. Þau fengu að njóta öruggrar leiðsagnar um hin ýmsu fræðasvið og ekki síður ljúfmennskunnar og kímninnar. Þau fundu vel að þessi maður bar hag þeirra fyrir brjósti og var tilbúinn að leggja hart að sér til að þau næðu sínum markmiðum. Brynjar hafði gott lag á nemendum og leyfði sér oft og tíðum ýmis konar útúrdúra og grallaraskap. Hann átti til dæmis það til að labba út úr kennslustundum fram á gang í miðri setningu og koma svo inn skömmu síðar og klára þá setninguna. Nemendur töldu víst að Brynjar ætti lager af formúlum fram á gangi en hann skrifaði mikið af slíkum upp á töflu og ef taflan hrökk ekki til greip hann stundum til þess ráðs að blása móðu á rúður og klára útreikningana þar.

Við Brynjar unnum saman sem stjórnendur um árabil og áttum ófá sporin inn á skrifstofur hvors annars. Þegar hann kom til mín voru upphafsorðin nær alltaf “sæll fóstri”. Mér þótti vænt um þetta ávarp því að í því birtist vel þessi magnaða blanda hlýju og kímni sem var svo einkennandi fyrir framkomu Brynjars. Og það var mjög gott að vinna með Brynjari. Hann var mjög nákvæmur og vandvirkur en alls ekki smámunasamur. Hann gaf lítið fyrir reglur og serimóníur sem ekki áttu sér vel rökstuddan tilgang og var alveg tilbúinn að láta reyna á þanþol regluverksins ef það þjónaði góðum málstað. Í starfi sínu sem kennslustjóri var Brynjar iðulega í samskiptum við nemendur sem höfðu ratað í einhverjar ógöngur. Þá kom sér vel að mál þeirra fóru um hendur manns sem lagði meira upp úr réttsýni, sanngirni og manngæsku heldur en rýni í reglugerðir. Brynjar lagði einmitt sérstaka natni við þann þátt kennslustjórastarfsins sem lýtur að ráðgjöf við nemendur.

Brynjar var einstakur vinnufélagi. Hann var ljúfur í lund, félagslyndur og gamansamur. Hann tók gjarnan þátt í gleði og gamni bæði í hópi starfsmanna og með nemendum. Hann var hógvær í allri framgöngu með einni undantekningu sem voru sagnir hans í bridds sem hann spilaði gjarnan í löngu frímínútunum og var þar manna áhættusæknastur. En þó að Brynjar tranaði sér ekki fram vissu allir að það mátti leita til hans og að þar kæmu menn ekki að tómum kofunum. Hann var mjög vel heima á hinum ótrúlegustu sviðum og tilbúinn til að ræða af nákvæmni og þekkingu um aðskiljanlegustu hluti hvort heldur það voru byggingaframkvæmdir, samband ríkis og kirkju eða fagurbókmenntir. Brynjar átti ráð undir rifi hverju og það er oft vitnað til hans í skólanum þegar verið er að spekúlera í hinum ýmsu vandamálum hvort sem þau snúa að skólamálum eða bara daglega lífinu.

Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann og að sjálfsögðu engin leið að gera þeim skil í stuttu máli. Fyrir mér og mörgum í Verkmenntaskólanum var Brynjar ekki aðeins vinnufélagi heldur líka náinn vinur. Það var gott að leita til hans um ráð en mesta ánægju hafði ég af því að ræða bara við hann um lífið og tilveruna. Ég lærði mikið af þessum samskiptum og þau eru eru mér ómetanleg. Brynjar var ekki bara kennari í Verkmenntaskólanum, hann var kennari í lífsins skóla og í mínum huga einn sá besti. Við Brynjar áttum okkar síðasta samtal 10.júní. Við sátum í eldhúsinu heima hjá honum í Hamarstígnum og spjölluðum í næstum tvo klukkutíma. Við ræddum ekkert um sjúkdóminn, heldur fyrst og fremst um stjórnmálin í Svíþjóð og það sem efst er á baugi í málefnum framhaldskólans. Þegar ég bjóst til að kveðja bað Brynjar mig að hinkra aðeins og við fórum inn í stofuna þar sem hann tók fram spjaldtölvu og sýndi mér nokkrar myndir frá sumarbústaðnum og benti sérstaklega á eina, frekar nýlega held ég, þar sem hann situr í heita pottinum og er að lesa í bók. Hann heldur bókinni hátt yfir vatninu enda ekki líkt honum að leggja bókina í hættu. Hvað ertu að lesa þarna spyr ég. “Þetta er bók Guðrúnar frá Lundi sem Hallgrímur Helga gaf út nýverið”. Nú svo bara kvöddumst við en þegar Sigrún hringdi ekki svo mörgum dögum seinna og sagði mér að Brynjar væri dáinn þá fór ég svona í framhaldinu að hugsa um það hvort að samskipti okkar þessa síðustu mánuði hafi ekki, líkt og alla tíð, verið eitthvað sem draga megi lærdóm af. Ég held að við megum íhuga hvernig hann varði sínum tíma eftir að honum var orðið ljóst að hann myndi lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum. Brynjar hélt sínu striki, lifði lífinu, naut lífsins og hélt áfram að deila með sér og sinna fjölskyldu og vinum af rausn og umhyggju. Þannig kláraði hann málið þessi frábæri maður. Við gömlu vinnufélagarnir í VMA söknum hans sárt en minning hans mun lifa. Þakka ykkur fyrir að hlusta.

Hálfdán Örnólfsson