Fara í efni

Mikilvægt starf umsjónarkennarans

Sólveig Þóra Jónsdóttir.
Sólveig Þóra Jónsdóttir.

„Í starfi umsjónarkennarans felst m.a. að fylgja nemandanum eftir, vera tengiliður hans í skólanum og jafnframt að vera tengiliður skólans við heimili nemenda yngri en átján ára. Einnig að fylgjast með mætingu nemenda,“ segir Sólveig Þóra Jónsdóttir, kennari á textílbraut og jafnframt brautarstjóri hennar. Sólveig Þóra er einnig í hópi umsjónarkennara í VMA.

„Við tengjum lífsleiknina og umsjónina saman þannig að þeir sem kenna lífsleiknina á fyrsta ári eru með fyrsta árs nemana í umsjón. Í lífsleikninni kennum við nemendum hvernig skólinn virkar, ef svo má að orði komast, og leiðbeinum þeim með námsvalið, hvert þeir eiga leita ef einhverjar ákveðnar spurningar vakna, o.s.frv. Við leggjum okkur virkilega fram við að halda vel utan um okkar nemendur. Auðvitað er mismunandi hversu umfangsmikil vinna felst í umsjón en hún getur verið umtalsverð. Almennt vil ég segja að starf umsjónarkennarans er mjög mikilvægt,“ segir Sólveig.

Nemendur leita gjarnan til umsjónarkennara sinna ef þeim af einhverjum ástæðum líður ekki nógu vel. Sólveig segist að undanförnu hafa orðið vör við að töluvert margir nemendur séu haldnir kvíða, einkum eigi það við um stúlkur. „Mér finnst vera meira um þetta í vetur en áður, en ég get ekki gert mér grein fyrir hvað veldur. Þetta birtist til dæmis í því að nemendur treysta sér ekki í skólann vegna kvíða. Þegar svona tilfelli koma upp reynum við umsjónarkennararnir að hjálpa nemendum eins og kostur er og ef nauðsynlegt þykir vísum við þeim til fagfólks, t.d. Hjalta Jónssonar sálfræðings skólans. Við reynum að mynda þannig tengsl við nemendur sem við höfum í umsjón að gagnkvæmt traust ríki. Nemendur verða að geta treyst því að um það sem á milli okkar fer ríki fullur trúnaður. Ég man eftir dæmum um það að nemendur sem komnir eru á annað ár og ég kenni ekki lengur hafa komið til mín með vandamál vegna þess að þeir höfðu myndað trúnaðarsamband við mig á fyrsta námsári. Þegar nemendur eru komnir á annað ár eru kennslu- eða brautarstjórar viðkomandi nermenda jafnframt umsjónarkennarar þeirra.“

Þessi vetur er sá þrettándi sem Sólveig er umsjónarkennari í VMA. Hún segir ýmislegt hafa breyst á þessum tíma. „Stóra breytingin er sú tækni sem rutt hefur sér til rúms með t.d. snjallsímunum. Þessi tæki hafa bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. En mér finnst áberandi hversu krakkar sem nú eru að koma í skólann sextán ára gömul eru háðir þessari tækni. Þeir leggja símana varla frá sér og átta sig stundum ekki á því að þeir eigi ekki að vera með þá í kennslustundum,“ segir Sólveig.