Fara í efni

Ljósaganga í dag – upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst í dag.
16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst í dag.

Í dag hefst 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi en þetta átak má rekja  aftur til ársins 1991. Engin tilviljun er að um sextán daga átak er að ræða því þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Í tilefni dagsins verður gengin svokölluð Ljósaganga á Akureyri og verður lagt af stað frá VMA kl. 16.30 og gengið sem leið liggur niður að Akureyrarkirkju og áfram niður á Ráðhústorg. Starfsmenn og nemendur VMA eru hvattir til að fjölmenna í gönguna.

Alþjóðlega þema 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi í ár er „Heimilisfriður – heimsfriður; Drögum úr hernaðarhyggju og bindum enda á ofbeldi gegn konum“. Hér heima hefur verið leitast við að tengja átakið við íslenskan veruleika og hefur m.a. verið skoðuð kynferðisleg áreitni á vinnustöðum.

Í átakinu í ár er spjótum beint að vitundarvakningu og aðgerðum er lúta að margþættum snertiflötum kynbundins ofbeldis og hernaðarhyggju, ásamt því að sýna  tengslin á milli baráttu fyrir efnahagslegum og félagslegum réttindum og baráttunnar til að binda endi á kynbundið ofbeldi.

Hér má sjá nánari upplýsingar um 16 daga átakið á heimasíðu þess og hér er hægt að fara inn á FB-síðu átaksins.

Hér á Akureyri verða eftirtaldar uppákomur þá sextán daga sem átakið stendur yfir:

Þriðjudagur 25. nóvember – Ljósaganga frá VMA kl. 16.30 niður á Ráðhústorg. Í göngulok verður kvikmyndin Girl rising sýnd í Sambíóunum. Myndin sýnir hvernig menntun getur rofið vítahring ofbeldis og fátæktar. Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum til styrktar Aflinu.
Miðvikudagur 3. desember - Námskeið kl. 11.30 um forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi fyrir starfsfólk félagsþjónustu, heilsugæslu, lögreglu, barnavernd og aðra sem vinna með heimilisofbeldi og afleiðingar þess.
Fimmtudagur 4. desember - Of Good Report sýnd í Sambíóunum kl. 16 á vegum Kvik Yndi. Í myndinni segir frá hæglátum kennara í afskekktu sveitaþorpi í Suður-Afríku sem á í ólöglegu ástarsambandi við nemanda sinn sem mun hafa hörmulegar afleiðingar fyrir þau.
Föstudagur 5. desember - Hádegisstund í Eymundsson kl. 12. Steinar Bragi Guðmundsson les upp úr bók sinni Kata og spjallar við gesti.
Laugardagur 6. desember - Samverustund á Amtbókasafninu kl. 14. Embla Guðrúnar- og Ágústsdóttir verkefnastýra Tabú fjallar um ofbeldi gegn fötluðum konum. Klukkan 13 sama dag hef bréfamaraþon Amnesty International í Eymundsson og á Bláu Könnunni.
Sunnudagur 7. desember – Helgistund í Akureyrarkirkju kl. 11 tileinkuð 16 daga átakinu.
Miðvikudagur 10. desember – Friðarkaffi og kakó við Kaffi Ilm kl. 17.

Í liðinni viku var rætt um kynbundið ofbeldi á svokölluðu Framhaldsskólatorgi í VMA og tók Hilmar Friðjónsson þessar myndir við það tækifæri. Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu hélt fyrirlestur þar sem þemað var „klám og ofbeldi í tengslum við karla og jafnrétti“. Fjórir hópar nemenda úr mismunandi áföngum í VMA hlýddu á fyrirlesturinn og spunnust áhugaverðar og góðar umræður, að sögn Valgerðar Daggar Jónsdóttur kennara. Hún segir að stefnt sé að því að Tryggvi verði með annan fyrirlestur á vorönn þar sem hann mun fjalla um jafnréttismál út frá öðru sjónarhorni. „Það var greinilegt af umræðum sem spunnust að nemendur hafa áhuga á þessum málum og ég held að sá áhugi hafi aukist eftir að farið var að kenna áfanga í kynjafræði hér,“ segir Valgerður Dögg.