Fara í efni

Langaði að prófa eitthvað nýtt

Jóhannes Kristinn Hafsteinsson.
Jóhannes Kristinn Hafsteinsson.

„Fyrst og fremst hafði ég áhuga á því að prófa eitthvað nýtt,“ segir Jóhannes Kristinn Hafsteinsson frá Stöðvarfirði, sem hóf nám í VMA sl. haust.

Þrátt fyrir að tveir framhaldsskólar séu á Austurlandi – annars vegar Menntaskólinn á Egilsstöðum og hins vegar Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað – segir Jóhannes Kristinn að það hafi freistað hans að fara í stærra samfélag og stærri skóla og láta á það reyna að standa eilítið meira á eigin fótum. Síðan hafi það haft sitt að segja að bróðir hans, Kristófer, og mágkona, Sigrún Ísey Jörgensdóttir, sem er frá Reyðarfirði, eru bæði nemendur í VMA. Kristófer er tveimur árum eldri og eru þeir bræður báðir í félagsfræðadeild skólans. Sigrún Ísey stundar nám á hársnyrtibraut. „Ég bý á heimavistinni og líkar það bara ágætlega,“ segir Jóhannes.

„Auðvitað var það mikil breyting fyrir mig að koma hingað í þennan stóra skóla úr sextán nemenda skóla á Stöðvarfirði og til að byrja með var það svolítið erfitt. En það var fljótt að breytast og það kom mér skemmtilega á óvart hversu opnir nemendur eru og því var ekki vandamál að kynnast þeim. Ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þá ákvörðun að koma hingað norður,“ segir Jóhannes en fyrir áramót hellti hann sér strax í félagslífið í VMA með því að taka þátt í uppfærslu leikfélags skólans á 101 Reykjavík.

Framtíðin að loknu framhaldsskólanámi er óráðin, að sögn Jóhannesar. „Eins og er stefni ég á háskólanám en ég veit ekki í hvað.“