Fara í efni

Læra grunninn í framreiðslu

Nokkrir matvælabrautarnemar með kennara sínum.
Nokkrir matvælabrautarnemar með kennara sínum.

Framreiðsla – þ.e. að þjóna til borðs – er kennd í grunnnámi matvæla- og ferðagreina, sem tekur tvær annir. Þeir nemendur sem eru núna á vorönn í grunnáminu hófu það sl. haust og í því kynnast þeir þeim sviðum matvælaiðnaðar sem síðan er unnt velja um í framhaldinu – matreiðslu, kjötvinnslu, bakstur, framreiðslu eða matartækni. Allir nemendur í grunnnáminu kynnast bæði eldamennskunni og framreiðslu og fá verklega kennslu í báðum þessum greinum.

Edda Björk Kristinsdóttir er kennari í framreiðslu í grunnnámi matvæla- og ferðagreina í VMA. Hún hóf þar störf um áramótin 2013-2014 en hafði áður til fjögurra ára starfað við starfsbraut VMA. Hún lærði framreiðslu á Bautanum á sínum tíma en tók skólahlutann í Hótel- og veitingaskólanum við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Jafnhliða náminu starfaði hún á Hótel Holti. Edda Björk rifjar upp að á Bautanum hafi hún komið að ýmsum skemmtilegum verkefnum og því fengið dýrmæta reynslu, m.a. hafi hún komið að ófáum stórveislum á vegum Bautans víða um land.

Edda segir að í framreiðslunámi sé áhersla lögð á undirbúning málsverðar frá öllum hliðum – þ.m.t. að leggja á borð og bera matinn fram, servíettubrot, blómaskreytingar, val á léttvínum með mat og ekki síst þjónustuna við viðskiptavini. Þá segir hún að nemendum sé m.a. kynntur Vakinn – gæðakerfi í ferðaþjónustu og kynntir séu ólíkir menningarheimar fólks sem sækir landið heim, sem aftur þýðir að þarfir þeirra í mat og drykk séu afar ólíkar.

Nemendur fara í heimsóknir í atvinnufyrirtæki, m.a. veitingastaði og heildsölur, og kynna sér starfsemi þeirra og vinna verkefni í tengslum við vinnustaðaheimsóknirnar.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð í vaxandi ferðaþjónustu að mikil þörf er á menntuðu framreiðslufólki. Hins vegar þarf lágmarks fjölda nemenda til þess að unnt sé að bjóða upp á námið í VMA – í framhaldi af grunnnmáminu - og þeim fjölda hefur ekki verið náð. Edda Björk segir að meistarakerfið hafi verið erfiður þröskuldur. Nemendur þurfi að komast á samning og vinna undir stjórn meistara í faginu í ákveðinn tíma áður en þeir geti hafið sjálft fagnámið. En staðreyndin sé sú að margir veitingastaðir hafi ekki yfir að ráða meisturum í framreiðslu og á meðan svo sé geti þeir ekki tekið framreiðslunema.

Á meðfylgjandi mynd er hópur nemenda í grunnnámi matvæla- og ferðagreina í VMA í þjónagöllunum. Lengst til hægri er kennari þeirra, Edda Björk Kristinsdóttir.