Fara í efni

Kom, sá og sigraði á Íslandsmótinu!

Helga Hermannsdóttir með viðurkenningu sína.
Helga Hermannsdóttir með viðurkenningu sína.

Helga Hermannsdóttir, nemi í kjötiðn, varð um þar síðustu helgi Íslandsmeistari í sínu fagi á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Helga mun útskrifast í vor sem kjötiðnaðarmaður frá VMA en á þessari önn tekur hún seinni hluta námsins á matvælabraut Menntaskólans í Kópavogi og að auki er hún í bóklegu námi í VMA. Og til viðbótar starfar hún hjá kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska og þar er lærifaðir hennar og meistari Stefán Einar Jónsson, verkstjóri ferskvinnslu í fyrirtækinu. Og svona til þess að fullnýta daginn er hún í þrifagenginu á kvöldin í ÚA! 

„Jú, það var bara snilld að vinna þetta,“ sagði Helga um Íslandsmeiratitilinn, en meðal þess sem hún gerði í keppninni var að úrbeina lambaskrokk og búa til úr honum ýmislegt góðgæti, þar á meðal svokallaða Wellington steik og beikonvafið lambalæri.

Helga byrjaði í námi sínu í VMA en er nú að taka síðustu faggreinarnar á matvælabraut Menntaskólans í Kópavogi. Hún flýgur suður að kvöldi miðvikudags og er í skólanum á fimmtudögum og föstudögum en kemur síðan aftur norður á föstudagskvöldum. Helga mun þó útskrifast sem kjötiðnaðarmaður frá VMA í vor. Helga og Rakel Þorgilsdóttir, sem er nemi í Kjarnafæði, fylgjast að í náminu. Og Rakel vann til bronsverðlauna á Íslandsmótinu um þar síðustu helgi. Það er því óhætt að segja að árangur þessara norðlensku stúlkna á Íslandsmótinu helgi hafi verið afbragðs góður.

Helga segir að starf kjötiðnaðarmanns sé fjölbreytt, vissulega geti það stundum verið líkamlega erfitt en hún sé ekki óvön því að hnykla vöðvana, enda alin upp með sex bræðrum! Einn þeirra, Höskuldur Hermannsson, er einnig kjötiðnaðarmaður. „Því miður eru alltof margir sem vita ekkert hvað starf kjötiðnaðarmannsins felur í sér. Þess vegna tel ég mikilvægt að gera átak í því að kynna starfið miklu betur en hefur verið gert,“ segir Helga.

Að lokinni brautskráningu í kjötiðn í VMA ætlar Helga að halda áfram bóklegu námi í skólanum og ljúka stúdentsprófi eftir eitt ár eða svo. Síðan er ekki ólíklegt að frekara nám verði ofan á.