Fara í efni

Íslenskan getur verið erfið viðureignar

Nemendur í ÍSA 203 með lokið af VMA-spilinu.
Nemendur í ÍSA 203 með lokið af VMA-spilinu.

Í VMA eru kenndir nokkrir áfangar í íslensku fyrir útlendinga. Þessa áfanga taka bæði nemendur sem eru hér á landi til skamms tíma, t.d. skiptinemar, en einnig nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál, eru til dæmis fæddir í öðru landi og hafa flust hingað til lands.

Litið var inn í kennslustund í áfanganum ÍSA 203 hjá Önnu Lilju Harðardóttur kennara. Alla jafna eru tíu í áfanganum en þrír þeirra voru fjarverandi þegar var litið við. Nemendur voru að spila stórskemmtilegt og fróðlegt VMA-spil sem nemendur á listnámsbraut hafa hannað og gert frá grunni. Með því að spila þetta spil eru slegnar tvær flugur í einu höggi, nemendur lesa íslensku og fá góða innsýn í starf Verkmenntaskólans.

Í áfangalýsingu fyrir ÍSA 203 segir m.a.: Unnin verða ritunarverkefni af ýmsu tagi; frásagnir, útdrættir og stuttar ritgerðir. Einnig lesa nemendur og vinna með ýmis konar texta; úr dagblöðum, fréttamiðlum, smásögur og ljóð. Farið verður í undirstöðuatriði íslenskrar beygingarfræði, setningafræði og ritunar. Áfram er lögð áhersla á hópefli, samvinnu og samskipti og að nemendur verði sjálfbjarga úti í samfélaginu t.d. með því að kenna þeim að nota almenningssamgöngur. Lögð er áhersla á að nemendur viti hvaða leiðir þeim eru færar í námi og að þeir þekki íslenska framhaldsskólakerfið og tækifærin til að ljúka námi. Farið í heimsóknir og kynnisferðir á ýmsar stofnanir samfélagsins.“

Meðal stofnanaheimsókna nemendur núna á vorönn var heimsókn til Eiríks Björns Björgvinssonar, bæjarstjóra á Akureyri.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Aron Sankla Ísaksson, Þorgils Ólafsson, Ása María Skúladóttir, Dagný Arnardóttir, Sofia Mullor Pla, Pathara Puttharat og Jenna Surudwadee Suwnarung.

Aron Sankla Ísaksson
Aron er frá Ásbyrgi í Kelduhverfi. Hann hóf nám í VMA sl. haust og segist kunna því vel. „Ég er ættleiddur og kom frá Thailandi árið 2008, þá var ég að verða tíu ára gamall. Það var svolítið skrítið að koma hingað og hvorki skilja né tala íslensku en þetta hefur komið smám saman. Mér finnst VMA skemmtilegur skóli, það hefur verið gaman að vera hér og kynnast nýjum krökkum,“ segir Aron og stefnir á nám á félagsfræði- og íþróttabraut. Hann upplýsir að hann sé íþróttaáhugamaður og spili fótbolta með 2. flokki Völsungs á Húsavík. Það er um langan veg að fara á æfingar því það tekur rétt um 40 mínútur að aka frá Ásbyrgi til Húsavíkur. „Ég tala alltaf íslensku við pabba og litla bróður en tælensku við mömmu,“ segir hann. „Mér finnst mikilvægt að halda tælenskunni líka. Ég hef aldrei farið til Thailands síðan ég kom hingað en það er möguleiki að við förum þangað í heimsókn næsta haust. Það væri gaman að hitta fjölskyldu mína í Thailandi,“ segir Aron.

Þorgils Ólafsson
Þorgils Ólafsson er fæddur og uppalinn á Akureyri en móðir hans er frá Thailandi. Hann er tvítyngdur, talar alla jafna íslensku á heimilinu og í skólanum en tælensku við móður sína. Hann kom í VMA strax að loknum grunnskólanum og segist kunna vel við sig. „Ég hef farið til Thailands, reyndar oftar hér áður fyrr, til að heimsækja ættmenni mín,“ segir Þorgils.

Ása María Skúladóttir
Ása María er Sauðkrækingur. Móðir hennar er tælensk en faðir hennar íslenskur.  „Fólk hefur oft þær ranghugmyndir að ég sé útlendingur og það getur stundum verið óþægilegt. Ég kom í VMA sl. haust vegna listnámsbrautarinnar, mig langaði að fara í listnám. Þetta er skemmtilegt nám, hér læri ég fjölmargt,“ segir Ása María. Hún segist fyrst og fremst tala íslensku en þó svo að hún skilji tælensku tali hún hana ekki mikið.

Dagný Arnardóttir
Dagný er Akureyringur en flutti þegar hún var þriggja ára til Noregs og bjó þar til hún kom aftur til Akureyrar sl. sumar og hóf nám í VMA. „Ég talaði alltaf íslensku heima við foreldra mína og systkini en ég er ekkert rosalega góð í því að lesa hana og skrifa. Foreldrar mínir ætla að flytja heim til Akureyrar á þessu ári en ég ákvað að fara á undan þeim og hef búið á heimavistinni í vetur. Ég ákvað að koma heim til þess að prófa eitthvað nýtt og síðan vissi ég af því að VMA er með frábæra náttúrufræðibraut og ég vildi fara á hana,“ segir Dagný. Hún neitar því ekki að stundum hafi henni reynst erfitt að fylgjast með í tímum, ekki síst varðandi ýmis fagorð, en kennararnir hafi reynst henni mjög hjálplegir. „Ég er lengi að skrifa íslenskan texta og hef því fengið lengri próftíma. Ef ég lendi í vandræðum fæ ég leyfi til þess að skrifa á ensku því ég er betri í ensku en norsku. Ég les mikið á ensku og skrifa sömuleiðis enskan texta,“ segir Dagný og upplýsir að hún stefni að því að læra verkfræði í framtíðinni. „Til hliðar gæti ég hugsað mér að skrifa bækur. Ég geri töluvert af því að skrifa sögur og þá á ensku,“ segir Dagný.

Sofia Mullor Pla
Sofia er skiptinemi frá Spáni sem hefur verið í vetur í VMA. „Að vera í skóla hér á Íslandi er töluvert frábrugðið því sem maður á að venjast á Spáni. Frjálsræðið er á allan hátt meira hér en heima á Spáni. Það hefur verið mjög gaman að vera hér í vetur í öðru vísi landi og með töluvert aðrar menningarlegar áherslur. Þetta á alveg örugglega eftir að nýtast mér vel heima. Næsta vetur hef ég í hyggju að fara í háskólanám í fornleifafræði í Madríd. Hvað síðan verður eftir það nám, veit ég ekki. Mér þætti áhugavert að starfa í öðru landi. Ég er nokkuð viss um að ég eigi eftir koma í heimsókn til Íslands síðar. Að sjálfsögðu hlakka ég til þess að fara heim í júní og hitta fjölskyldu og vini en á sama tíma fylgir því ákveðinn tregi,“ segir Sofia.

Pathara Puttharat
Pathara er fæddur í Thailandi en kom til Akureyrar fyrir tveimur árum.  „Íslenskan er erfið, sérstaklega er erfitt að skrifa hana. En ég get frekar lesið hana,“ segir Pathara. Foreldrar hans eru báðir tælenskir, faðir hans kom til Akureyrar fyrir nokkrum árum en móðir Pathara kom einnig árið 2013. Foreldrarnir reka veitingastaðinn Krua Siam og þar segist Pathara einnig starfa á sumrin. Pathara er ánægður með VMA, hann er í grunndeild matvælabrautar og stefnir að því að verða kokkur í framtíðinni. „Mér finnst gaman að elda.“

Jenna Surudwadee Suwnarung
Jenna fæddist og ólst upp á Thailandi en fluttist til Akureyrar fyrir tveimur árum. Móðir hennar er tælensk. Hún segir að íslenskan sé erfið viðureignar en hún reyni þó eins og kostur er að ná tökum á henni. „Heima tala ég íslensku við pabba en tælensku við mömmu.“
Auk náms í VMA vinnur hún með skólanum í frystihúsi ÚA á Akureyri. „Það er mikið að gera,“ segir hún, „ég fer í vinnuna eftir skóla.“