Fara í efni

Íslensk málfræði er erfiðust

Krystsina Tsiutchanka er að ljúka stúdentsprófi.
Krystsina Tsiutchanka er að ljúka stúdentsprófi.

Krystsina Tsiutchanka fluttist níu ára gömul með foreldrum sínum frá Senno í Hvíta-Rússlandi til Íslands. Til að byrja með bjó fjölskyldan á Svalbarðsströnd og Krystsina gekk í Valsárskóla. Að ári liðnu fluttist fjölskyldan yfir fjörðinn og Krystsina sótti Síðuskóla. Haustið 2011 fór hún síðan í VMA og nk. laugardag, sjö önnum síðar, lýkur Krystsina stúdentsprófi af bæði viðskipta- og hagfræðibraut og félagsfræðabraut.

„Pabbi fékk vinnu hérna og þess vegna fluttum við á sínum tíma til Íslands. Ég var þá níu ára gömul og það var heppilegt fyrir mig að byrja á því að fara í fámennan skóla eins og Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Það auðveldaði mér að læra íslenskuna. Ég viðurkenni að málfræðin hefur reynst mér erfiðust í íslenskunáminu, en ég hef alltaf reynt að vera virkur nemandi og opin fyrir samskiptum við fólk og það hefur hjálpað mér að komast vel inn í tungumálið,“ segir Krystsina.

Hún segist eiga erfitt með að svara því hvort hún líti á sig í dag sem Hvít-Rússa eða Íslending. „Mér finnst erfitt að meta þetta.  Ég er orðin íslenskur ríkisborgari og hef því tvöfalt ríkisfang. Við förum á hverju sumri til Hvíta-Rússlands og höldum þannig miklum og góðum tengslum þangað enda eru fjölmargir okkar nánu ættingja eðlilega búsettir þar,“ segir Krystsina sem er fædd árið 1995. Hún á eina systur sem er fædd hér á landi og er sextán árum yngri.

Þó svo að eðlilega hafi íslenskan verið Krystsinu eilítið erfið á sínum tíma segist hún hafa staðið vel að vígi á öðrum sviðum, t.d. í stærðfræði. „Ég man eftir því að þegar ég kom í fimmta bekk í Valsárskóla var ég búin að fara í gegnum allt sem við þurftum að læra í stærðfræði.“

Hvít-Rússar tala rússnesku en fólk þar lærir einnig hvít-rússnesku, ekki ósvipað því að Íslendingar læra ensku sem annað tungumál. Krystsina er því eðlilega altalandi á rússnesku og þá kunnáttu hefur hún nýtt sér sem túlkur fyrir Alþjóðastofu á Akureyri.  Krystsina er kölluð til ef rússneskumælandi fólk þarf aðstoð við til dæmis að fylla út ýmsa pappíra, við læknisþjónustu eða í viðtölum. „Þetta er sem sagt aðstoð við rússneskumælandi fólk – bæði fólk sem hefur rússnesku sem móðurmál og fólk sem hefur lært rússnesku og getur talað hana – t.d. fólk frá Eystrasaltslöndunum -  sem býr hér á svæðinu en er ekki ennþá komið með nægilega góða kunnáttu í íslensku,“ segir Krystsina.

Krystsina er afar sátt við annirnar sjö í VMA. „Ég var fyrst á almennri braut vegna tungumálsins en síðan gekk mér bara það vel að þegar upp er staðið er ég að ljúka námi af tveimur námsbrautum. Ég er mjög ánægð með veruna í VMA. Hér hef ég lært margt og mikið og kennararnir hafa verið frábærir og hjálpsamir. Þeir hlusta á okkur nemendur og það er alltaf hægt að leita til þeirra ef maður þarf aðstoð. Það skiptir miklu máli,“ segir Krystsina og upplýsir að hún stefni á nám í rekstrarfræði í Háskólanum á Akureyri næsta haust.