Fara í efni

Fjarnámið að fara af stað

Fjarnámskennsla hefst í næstu viku.
Fjarnámskennsla hefst í næstu viku.

Innritun fjarnema í VMA núna á haustönn er lokið og munu um 250 nemendur stunda fjarnám í skólanum á önninni – sem jafngildir um 100 nemendaígildum, þ.e. nemendur í fullu námi. Kennsla fjarnema hefst í næstu viku.

Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, segir að áberandi mikil ásókn sé í meistaraskólaáfanga í fjarnáminu en minna sé um það en oft áður að nemendur í dagskóla í VMA taki viðbótaráfanga í fjarnámi. Baldvin telur það mögulega skýrast að hluta af því að breytingar á töflukerfi skólans geri nemendum auðveldara að koma áföngum sem þeir þurfa að taka í stundatöflur sínar í dagskóla.

Fjarnám fer sem kunnugt er fram með tölvusamskiptum milli nemenda og kennara og eðli málsins samkvæmt eru engin landamæri í því hvar nemendurnir eru staðsettir. Í gegnum tíðina hafa nemendur í fjarnámi í VMA verið út um allt land og þá hafa jafnan verið nokkrir nemendur búsettir erlendis í fjarnámi í VMA.

Sem fyrr segir er áberandi mikil ásókn í meistaraskólaáfanga í fjarnámi en VMA býður upp á bróðurpartinn af meistaraskólanum. Þetta nám stendur þeim til boða sem lokið hafa sveinsprófi í iðngreinum.