Fara í efni

Kynning í dag á lokaverkefnum vélstjórnarnema

Þurrkun á harðfiski er stefið í einu verkefninu.
Þurrkun á harðfiski er stefið í einu verkefninu.

Á vorönn vinna útskriftarnemendur í vélstjórn  lokaverkefni og er óhætt að segja að undanfarin ár hafi mörg þeirra vakið mikla athygli. Og nú er komið að kynningu á lokaverkefnum útskriftarnema í vélstjórn á þessu vori. Kynning á verkefnunum verður í dag, mánudaginn 2. maí, kl. 13:15 í M-01 og er öllum opin á meðan húsrúm leyfi. Full ástæða er til þess að hvetja sem flesta að mæta og hlýða á kynningar nemendanna. Og í framhjáhlaupi má nefna að í dag munu nemendur úr Tónlistarskólanum á Akureyri mæta í Gryfjuna í löngu frímínútunum og spila fyrir nemendur. Það verður því nóg um að vera í skólanum í dag.

Verkefnin sem vélstjórnarnemendur hafa unnið að á vorönn eru mjög fjölbreytt og áhugaverð. Bæði er um að ræða einstaklings- og samvinnuverkefni. Verkefnin eru:

1. Athugun á sjálfvirkum sjósleppibúnaði fyrir björgunarbáta. 
2. Hagkvæmnisathugun á borholudælu á Laugalandi Eyjafjarðarsveit.
3. Olía unnin úr plasti - athuganir og rannsókir á gæðum olíunnar.
4. Hönnun og hugmyndavinna á björgunarsleða úr trefjaplasti.
5. Endurbætur á netaspili fyrir grásleppuveiðar.
6. Hönnun  á handlokk fyrir stál.
7. Frysti- og kælikerfisútreikningar og  hagkvæmni á frystigeymslu sem verið er að útbúa á Þórshöfn.
8. Hagkvæmnisathugun á smíði á yfirbyggingu á fjárflutningabíl úr trefjaplasti.
9. Athugun og útreikningur á harðfiskþurrkun þar sem jarðvarmi er nýttur til hitunar.