Fara í efni

Leikfélag VMA frumsýnir 101 Reykjavík nk. föstudag

Úr uppfærslunni á 101 Reykjavík. Mynd: E.B.F.
Úr uppfærslunni á 101 Reykjavík. Mynd: E.B.F.

Næstkomandi föstudag, 24. október, frumsýnir Yggdrasill, leikfélag VMA, leikritið 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Sýnt verður í Rýminu, Hafnarstræti 57 (gömlu Dynheimar).

Bók – kvikmynd – leikrit
Verkið fjallar í stórum dráttum um Hlyn Björn Hafsteinsson, karlmann á fertugsaldri, sem býr ennþá hjá móður sinni. Hann lifir á atvinnuleyisbóstum og eyðir flestum dögum í drykkju, að horfa á klám og vafra um internetið. Hann gerir óvart stelpu ólétta. Lolla, vinkona móður Hlyns Björns, flytur inn til þeirra og síðar kemur í ljós að hún er ekki öll þar sem hún er séð. Líf Hlyns breytist og hann þarf að hætta að lifa lífi sínu í sjálfselsku.
Uppfærsla Yggdrasils á 101 Reykjavík er hröð og kraftmikil, krydduð með skemmtilegri 90‘s tónlist.
101 Reykjavík var gefin út á bók árið 1996 og vakti strax athygli og hefur æ síðan notið mikilla vinsælda. Árið 2000 gerði Baltasar Kormákur síðan vinsæla kvikmynd eftir bókinni.

Geymið ekki að fá ykkur miða!
Sem fyrr segir verður frumsýning næstkomandi föstudag, 24. október, og hefst hún kl. 20:00. Næstu sýningar verða 25., 26. og 31. október og 1., 7., og 8. nóvember. Almennt verð á sýninguna er kr. 2500 en félagar í nemendafélögum VMA og MA fá miðann á 2000 kr. Þá miða er ekki hægt að kaupa í gegnum vefiinn, heldur þarf að kaupa þá í miðasölu Menningarhússins Hofs. Síminn þar er 450 100. Einnig verður hægt að kaupa miða í Samkomuhúsinu sýningardagana og hefst hún þremur tímum fyrir sýningar. Þá verða miðar seldir við innganginn í Rýminu hálftíma fyrir sýningu.
Á vefnum eru miðar komnir í sölu á www.leikfelag.is, www.menningarhus.is og www.midi.is Ath. að sýningin er ekki við hæfi barna undir 12 ára aldri.

Upprisa Yggdrasils!
„Jú, þetta er sannarlega búið að vera stórt og krefjandi verkefni. Við byrjuðum að vinna að þessu fyrir mánuði og höfum æft og undirbúið sýninguna án uppihalds síðan. Það er sannarlega í mörg horn að líta við uppsetningu leiksýningar en við höfum notið mikillar velvildar og allir verið boðnir og búnir að leggja okkur hjálparhönd. Mér sýnist að við séum að ná þessu og þetta verður allt tilbúið á frumsýningardaginn,“ segir Ragnar Bollason, formaður Yggdrasils. Hann segir að þegar auglýstur hafi verið fundur hjá leikfélaginu í byrjun haustannar hafi hann ekki getað ímyndað sér hversu margir myndu mæta. Það hafi því komið skemmtilega á óvart þegar um 50 manns mættu á fundinn og í framhaldinu var ákveðið að ráðast í þessa uppfærslu. „Leikfélagið hefur verið í lægð undanfarin ár en ég lít svo á að þessi uppfærsla marki upprisu Yggdrasils. Að sýningunni stendur kraftmikill hópur sem nær vel saman. Það leggjast allir á eitt að gera góða sýningu undir dyggri leikstjórn Jóns Gunnars. Hlutverkin í sýningunni eru tæplega 30 en í það heila koma um 50 manns á einn eða annan hátt að sýningunni,“ segir Ragnar. Í mörg horn er að líta fyrir Ragnar því auk þess að vera á fullu í leiklistinni ætlar hann að ljúka námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA fyrir jól. Hann segir ekkert launungarmál að í framhaldinu stefni hann á að fara í annað hvort kvikmynda- eða leiklistarnám.

Krefjandi og spennandi verkefni
„Þetta er mjög krefjandi og spennandi verkefni,“ segir Valþór Pétursson sem leikur aðalhlutverkið, Hlyn Björn Hafsteinsson, í uppfærslu Yggdrasils á 101 Reykjavík. Ásamt Agli Bjarna Friðjónssyni er Valþór á sviðinu nánast allan tímann og því þarf ekki að hafa mörg orð um að hlutverkið er stórt og tekur á. „Já, ég þurfti að læra mikinn texta í þessu viðamikla hlutverki. Þetta er stærsta hlutverk mitt á leiksviði til þessa en ég hef alveg frá því ég var í 5.  bekk barnaskóla leikið í leikritum, mest með Leikfélagi Keflavíkur, þaðan sem ég kem, meðal annars í Ávaxtakörfunni og Grease.“
Valþór segir að undanfarnar vikur hafi verið erilsamar, æfingatíminn hafi verið stuttur og því hafi þurft að vinna hratt og vel en allt hafi þetta gengið upp að lokum. Námið hefur þurft að víkja aðeins á æfingatímanum en Valþór hyggst nýta tímann næstu vikurnar vel í náminu. Hann er nýnemi, hóf nám sl. haust á félagsfræða- og listnámsbraut VMA og stefnir á eftir framhaldsskóla að fara í arkitektúr en plan B er leiklistarnám.