Fara í efni

Netla: Hjalti Jón og Rúnar fjalla um stutta starfsnámsbraut í VMA

Suðumenn að störfum í VMA.
Suðumenn að störfum í VMA.

Á Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun, sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur veg og vanda að, hefur verið birt grein Hjalta Jóns Sveinssonar og Rúnars Sigþórssonar sem ber yfirskriftina „Reynsla nemenda í Verkmenntaskólanum á Akureyri af þróunarverkefni um stutta starfsnámsbraut“.

Í greininni, sem er ritrýnd og var birt þann 10. október sl. á Netlu, er fjallað um tilraunaverkefni sem miðaði að því að koma á fót stuttri starfsnámsbraut innan Almennrar brautar við VMA skólaárin 2011–2012 og 2012–2013.

Markmið greinarinnar er að lýsa tilraunaverkefninu og greina frá reynslunni af því frá sjónarhóli nemendanna sem tóku þátt í því fyrstu tvö árin, reynslu þriggja starfsmanna skólans af verkefninu og mati þeirra á því að hvaða marki það kom til móts við þarfir nemendanna.

Í inngangi að greininni á Netlu segir:

„Starfsnámsbrautin er liður í viðleitni VMA til að ná til nemenda í brotthvarfshættu með nýju og óhefðbundnu námsúrræði. Markmið starfsnámsbrautarinnar er að bjóða nemendum fræðslu um atvinnulífið og búa þá undir frekari þátttöku á vinnumarkaði að loknu framhaldsskólaprófi. Sjö nemendur af tólf sem hófu starfsnámið haustið 2011 luku námi á vorönn 2012 og höfðu staðfest skólavist á næsta hausti. Af sex manna hópi sem innritaðist á starfsnámsbrautina haustið 2012 höfðu fimm lokið því námi sem þeir voru skráðir í og staðfest skólavist ári síðar. Í viðtölum sem tekin voru við nemendurna sem tóku þátt í náminu og dagbókum frá nokkrum þeirra kom fram að þeir voru allir ánægðir með námið og töldu það hafa verið gagnlegt enda þótt þeir væru enn óráðnir um framtíð sína að öðru leyti en því að ætla að halda áfram námi við VMA. Starf þeirra á vinnustöðunum gekk í öllum tilvikum vel. Kennslustjórum Almennu brautarinnar og umsjónarkennara námsins bar saman um að það hefðu verið vonbrigði að fimm nemendur hurfu frá náminu fyrra árið. Engu að síður er það niðurstaða rannsóknarinnar að starfsnámið hafi sannað gildi sitt fyrir þá nemendur sem luku skólaárinu og að þeir hefðu að öllum líkindum hætt í skólanum að loknu fyrsta námsári ef þeir hefðu ekki átt kost á þessu úrræði.“

Hér má sjá grein þeirra Hjalta Jóns og Rúnars.