Fara í efni

Ávarp fulltrúa 30 ára brautskráningarnema VMA

Hilmar Friðjónsson flytur ávarp í Hofi í dag.
Hilmar Friðjónsson flytur ávarp í Hofi í dag.
Hilmar Friðjónsson, kennari við VMA, brautskráðist sem stúdent frá VMA fyrir þrjátíu árum. Þrjátíu árum síðar stóð hann í pontu á útskriftardegi VMA í Menningarhúsinu Hofi og flutti ávarp fyrir hönd 30 ára brautskráningarnema.
 

"Ágæta samfélag brautskráningarnema, samstarfsmanna, ættingja og vina brautskráningarnema! Góður vinur minn og skólabróðir, Ágúst Guðmundsson, hringdi í mig sl. fimmtudag og spurði hvort ég væri til í þriggja mínútna ræðu sem fulltrúi 30 ára brautskráningarnema VMA hér í dag. Auðvitað sagði ég já. Það blasir við. Að vera bóngóður er ekki algerlega slæmt en það gæti komið mér einn daginn í gröfina að geta ekki sagt nei. Þessi 30 ára nemendahópur heldur líka upp á 50 ára afmæli sín hér á jörð og Gústi, eins og ég vil kalla hann hér í dag, sagði mér að því tilefni sögu af því þegar hann var 8 ára gamall. Þá átti hann (og á enn) vin sem átti pabba sem hélt þá upp á sitt 50 ára afmæli. Gústi sagðist þarna hafa vorkennt vini sínum óendanlega mikið að eiga svona gamlan pabba því nú væri þetta að veðra búið hjá pabbanum. Það væri ekkert eftir.

Hér stend ég, nýorðinn fimmtugur, og get haldið því fram að partýið heldur áfram. Alla vega í nokkur ár í viðbót. En hvað ætti ég nú að tala um hér og nú, fyrst ég er nú kominn í pontuna? Ég er ekki í nokkrum vandræðum með efni. Hér í salnum er fólk sem ég hef ánægjulega kynnst í gegnum árin. Sumir eru um eða yfir tvítugt og sitja hérna fyrir aftan mig. Sumir eru um fimmtugt en aðrir eru á aldri sem ég vil helst ekki gefa upp. Það er af nógu að taka.

Ég man enn eftir Unu inni á skrifstofu VMA árið 1987. Ég man enn eftir Hálfdáni, Adam, Ernu, Kristínu og Hauki. Ég man líka eftir Gullu Hermanns, Nönnu, Þresti og Árna og Hinriki íþróttakennurum þegar þau fyrir rúmlega 30 árum síðan voru að kenna okkur lexíurnar. En ég man líka eftir sögumanninum Alberti Sölva Karlssyni sem á eftirminnilegan hátt gerði dauðar sögupersónur lifandi og séntilmanninum Friðrik Þorvaldssyni sem kenndi okkur m.a. að bölva vondu veðri á smekklegri þýsku. Svo man ég eftir nokkrum fleirum þegar ég verð minntur á þá núna rétt á eftir

Samferðamenn okkar koma og fara.  Og  fyrir sum ykkar er ég samferðamaður ykkar.  En ég gæti líka verið að sjá sum ykkar í síðasta skiptið hér í dag því einhver ykkar munu takast á við verkefni í framtíðinni sem verða annars staðar en á Akureyri.

Á minni vegferð hef ég átt marga samferðamenn en lengst hafa þeir verið samferða mér sem ég var með í VMA fyrir rúmlega 30 árum. Ég man flest andlitin en ekki alveg öll nöfnin.  En marga úr þessum hópi er ég enn í dag í góðu sambandi við. Ég gæti ekki verið heppnari með mitt samferðafólk og ég get ekki óskað ykkur betri framtíðar en að vera í góðu sambandi við ykkar fólk.

En hvað get ég sagt eða gefið ykkur og ykkar samferðafólki í fararnesti inn í þessa framtíð ykkar? Hvaða vísdóm get ég lagt fyrir ykkur sem þið getið notað og vitnað í þegar þið sjálf eruð orðin fimmtug? Til að átta mig á hvað það gæti verið vil ég fara 30 ár aftur í tímann og reyna að átta mig á því hvaða ráð ég fékk þegar ég var sjálfur í ykkar sporum. Hvaða viskuorð það voru sem áttu að fylgja mér inn í mína framtíð, marka mín spor? Ég hreinlega bara man það ekki og líklega hef ég gleymt því sama dag og ég útskrifaðist. 

Þannig að hvað í ósköpunum get ég þá sagt við ykkur sem mun vera svo djúpt og svo sterkt að það muni marka veg ykkar um ókomna framtíð?  Svo stór orð að þið munið þau 30 árum seinna. Svarið er… EKKERT. Nákvæmlega ekki neitt. Ég á engin orð handa ykkur. Þið verðið bara sjálf að marka ykkar eigin veg.  Búa til ykkar eigin framtíð.  Ég og aðrir samkennarar ykkar erum bara samferðafólk ykkar í stutta stund og ég fyrir mína parta get ekki fyrir mitt litla líf sagt ykkur hvað þið eigið að gera með ykkar framtíð. Þetta er allt saman í ykkar höndum og það er ykkar að búa til næstu framtíð. 

Þegar ég var að útskrifast voru 12 ár í að almenningur byrjaði að nota internetið. Við hlóðum tölvuleikjunum upp í Sinclair tölvurnar af kassettum. Það voru 20 ár í að snjallsímarnir eins og við þekkjum þá í dag urðu til. Við notuðum enn þá heimasíma sem voru bundnir við vegginn með snúru. Það voru 29 ár þangað til Netflix hóf útsendingar hér á Íslandi. Við vorum þá nýbúin að fá Stöð 2 og Rás 2 sendi út part úr degi. Ekkert næturútvarp í þá daga. 

Hvernig í ósköpunum gat einhver ráðlagt mér um mína framtíð þarna árið 1987 þegar tímarnir áttu eftir að breytast svona mikið? Í þá daga sá enginn þessar breytingar fyrir. Og ég sé ekki fyrir mér þær breytingar sem eru í vændum, næstu þrjátíu árin. Þannig að ef ég slysast til að gefa ykkur einhver ráð hér í dag, viljið þið þá endilega gera mér þann greiða að vera búin að gleyma þeim fyrir lok þessa dags.

Til hamingju með daginn! Takk fyrir!"