Fara í efni

Árshátíð VMA á föstudagskvöldið: Miðasala í fullum gangi

Miðasala verður í Gryfjunni í dag kl. 8-16.
Miðasala verður í Gryfjunni í dag kl. 8-16.

Það styttist óðum í árshátíð VMA – sem verður haldin í Íþróttahöllinni nk. föstudagskvöld. Eins og vera ber er undirbúningur að ná hámarki og miðasala á hátíðina er í fullum gangi. Mikill kraftur færðist í miðasöluna í gær og þeim sem ekki hafa nú þegar tryggt sér miða er bent á að í dag verður miðasala allan daginn í Gryfjunni – frá kl. 08:00 til 16:00.

Auk aðgöngumiðasölu á hátíðina í VMA eru einnig seldir miðar á ballið með Gus Gus, sem hefst að lokinni formlegri dagskrá á árshátíðinni, í Menntaskólanum á Akureyri og í Pennanum-Eymundsson. Einnig verða seldir miðar á ballið í Íþróttahöllinni á föstudagskvöldið þar til húsinu verður lokað kl. 00:15. Verð aðgöngumiða á hátíðina – matur og dansleikur – er kr. 7.000. Aðgöngumiðinn á dansleikinn kostar kr. 3.500. Dansleikurinn er öllum opinn. Ölvun er óheimil og ógildir aðgöngumiðann á árshátíðina og dansleikinn.

Þrjú úr stjórn Þórdunu – nemendafélags VMA – voru í Gryfjunni í gær að selja miða á hátíðina, þar á meðal Stefanía Tara Þrastardóttir formaður. Hún segir mikla vinnu að baki og unnið verði baki brotnu að undirbúningi þar til hátíðin hefjist kl. 19 á föstudagskvöldið. „Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu. Það er allt að gerast og fjölmargir hafa keypt miða á hátíðina í dag, sem er frábært. Ég er viss um að þetta verður stórglæsileg og fjölsótt árshátíð,“ segir Stefanía Tara.

Á borðum á hátíðinni verður hlaðborð frá Bautanum. Á því verður:

Aðalréttir:
Djúpsteiktur steinbítur (litlir bitar) á súrsætum hrísgrjónum (heitur)
Ostbakaður pastaréttur með beikoni og grænmeti í rjómasósu (heitur)
Grilluð kjúklingabringa með appelsínugljáa á steiktum grænmetishrísgrjónum (kaldur)
Eggjanúðlur með grænmeti (heitur)
Villikryddað lambalæri með sveppasósu og kryddbökuðum kartöflum (heitur)
Ferskt salat með tómötum, gúrkum , vínberjum, djúsdressingu og brauðteningum (kalt)

Ítalskt brauð og kryddolía á borðum.

Desert:
Frönsk súkkulaðikaka borin fram með vanilluís, berjacompot og þeyttum rjóma

Allar nánari upplýsingar og nýjustu fréttir um árshátíðina má sjá á fésbókarsíðu árshátíðarinnar.