Fara í efni

Alvarleg fjárhagsstaða VMA - fordæmalaus staða

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.

Á undanförnum misserum og árum hefur þrengt mjög að rekstri Verkmenntaskólans á Akureyri vegna þess að framlög ríkisins til skólans hafa ekki staðið undir rekstrinum. Og nú er svo komið að ríkið greiðir ekki rekstrarfé til skólans fyrr en uppsafnaður halli skólans síðustu tvö ár hefur verið endurgreiddur ríkissjóði. Þetta gerir það að verkum að skólinn hefur lítið eða ekki getað greitt fyrir nauðsynleg aðföng til skólans, reikningar hrannast upp og á þá eru komnir dráttarvextir. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari segir að þessi staða sé algjörlega fordæmalaus í sögu skólans. En VMA er fjarri því að vera eini framhaldsskóli landsins í sambærilegri stöðu þessa dagana.

„Staðan er sú að um áramót var Verkmenntaskólinn í skuld við ríkissjóð og það hefur gerst áður, en oftar en ekki höfum við verið á núllinu eða rétt yfir núllinu. Það hefur komið fyrir áður að okkur hafi vantað rekstrarfé og við höfum þá getað óskað eftir fé frá ráðuneytinu til þess að brúa bilið. En í byrjun febrúar fengum við þau svör að vegna þess að skólinn hafi verið í skuld við ríkissjóð um áramót fengjum við ekki framlög fyrr en skuldin við ríkissjóð væri gerð upp. Um er að ræða uppsafnaðan halla frá bæði árinu 2014 og 2015. Við höfum fengið þau svör að við verðum að borga ríkissjóði til baka uppsafnaðan halla skólans áður en við getum greitt þá reikninga sem hér safnast upp vegna daglegs reksturs skólans,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, um fjárhagsstöðu skólans þessa dagana.

„Við fáum sértekjur í upphafi annar vegna innritunargjalda og efnisgjalda og við nýttum þær tekjur í rekstri skólans á fyrstu vikum annarinnar en síðan leið tíminn og við fengum ekkert að vita fyrr en við óskuðum eftir rekstrarfé í febrúar um þá afstöðu mennta- og menningarmála-  og fjármálaráðuneytisins að loka á allar greiðslur rekstrarfjár til skólans fyrr en hann væri búinn að greiða til baka uppsafnaðan halla í rekstrinum. Við höfðum ekkert bréf fengið í þessa veru og ég var ekki heldur upplýst um það þegar ég tók við starfi skólameistara í desember sl. að ég væri að taka við stofnun sem fengi ekkert rekstrarfé eftir áramót.
Síðastliðið haust sátum við þrjú, fráfarandi skólameistari, Hjalti Jón Sveinsson, ég sem aðstoðarskólameistari og Björk Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri skólans, fund í menntamálaráðuneytinu þar sem við lýstum áhyggjum okkar af rekstrarstöðu skólans og hvernig fjárframlög til hans væru reiknuð. Við höfum lengi bent á að við teljum að það sé ekki rétt gefið og fjárframlög úr ríkissjóði til skólans séu ranglega reiknuð. Sem dæmi teljum við okkur ekki hafa fengið launahækkanir kennara viðurkenndar í framlögum til skólans eins og ætti að vera. Ráðuneytið er hins vegar á annarri skoðun. Við höfum óskað eftir upplýsingum um það í hverju það liggur að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er hækkun á framlögum á hvern nemanda í Verkmenntaskólanum á Akureyri mun minni en í sambærilegum skóla. Ársnemandinn í VMA hækkaði um 1,6% milli áranna 2015 og 2016 en í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, sem er á flestan hátt sambærilegur við VMA, nemur hækkunin 5,7% milli ára. Við höfum ítrekað spurt mennta- og menningarmálaráðuneytið í hverju þessi munur liggi en ekki ennþá fengið nein svör. Á fundinum sl. haust var heldur ekki minnst á það einu orði að við yrðum að gera okkur grein fyrir því að eftir áramót myndum við ekki fá rekstrarframlög til skólans fyrr en búið væri að endurgreiða ríkissjóði uppsafnaðan halla. Eftir því sem ég kemst næst á þetta ekki bara við um VMA, enginn framhaldsskóli fékk slíkar upplýsingar.“

Margir framhaldsskólar í sambærilegri stöðu
Fjölmargir framhaldsskólar eru í sömu stöðu þessa dagana og Verkmenntaskólaskólinn á Akureyri. Í dymbilvikunni birtist grein eftir Hjalta Jón Sveinsson, skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík og formann Skólameistarafélags Íslands, þar sem hann lýsti grafalvarlegri stöðu Kvennaskólans. Í greininni segir hann m.a.: „Í bréfi frá ráðuneytinu í lok síðasta árs er óskað eftir því að ,,skólinn leggi fram greinargerð sem skýrir til hvaða aðgerða skólinn telur að hann þurfi að grípa, svo hægt verði að treysta forsendur rekstraráætlunar og koma í veg fyrir frekari hallarekstur og að greiða niður uppsafnaðan rekstrarhalla á næstu 2-3 árum.“ Við höfum bent á nokkra mikilvæga rekstrarþætti sem skólinn telur sig ekki hafa nægilegt fé til þess að greiða fyrir. Við hverju má búast; verður þetta leiðrétt? Við treystum okkur til þess að skila hallalausum rekstri og gera upp halla fyrri ára svo fremi sem framlög miðist við þau meðallaun kennara sem greidd eru í skólanum og tekið verði tillit til annarra kjarasamningsbundinna þátta eins og aldurstengds kennsluafsláttar. Í þessum efnum hafa verið tekin hundruð milljóna úr almennum rekstri framhaldsskólanna á undanförnum árum. Síðast en ekki síst eigum við eftir að fá uppgerðar bætur vegna launahækkana 2014 og 2015 upp á að minnsta kosti þá fjárhæð sem ríkissjóður metur svo að eiga inni í tilviki Kvennaskólans. Það er í hæsta máta óeðlilegt að umtalsverður hluti launa og launatengds kostnaður sé tekinn af hinu litla ráðstöfunarfé skólans til annars rekstrar ár eftir ár og ekki sér fyrir endann á.“ 

Dráttarvextir á reikninga
Sigríður Huld segist vita að skólameistarar margra framhaldsskóla séu mjög hissa á þeim viðbrögðum sem þeir fái úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu „og ég spyr mig hvers konar stjórnsýsla það er af hendi ráðuneytisins að taka slíkar ákvarðanir á þess að upplýsa viðkomandi stofnanir og telja að það sé betra fyrir ríkið að skólarnir greiði ríkissjóði uppsafnaðan halla en að safna dráttarvöxtum á ógreidda reikninga, sem auðvitað hrannast upp. Mér finnst ekki vel farið með skattfé almennings að safna dráttarvöxtum vegna þess að við getum ekki greitt okkar reikninga. Við höfum lengi sagt að þessi halli er til kominn vegna þess að rangt er gefið í fjárframlögum til skólanna. Það að stjórnendur meira en helmings framhaldsskólanna á Íslandi telji sig ekki geta rekið skólana sína réttum megin við núllið hlýtur að segja okkur að eitthvað annað en að við séum að bruðla í okkar rekstri veldur þessari stöðu. Við höfum staðið í miklum niðurskurði í mörg undanfarin ár og ekki haft möguleika á því að endurnýja okkar tækjabúnað nema að litlu leyti. Til dæmis höfum við í VMA sum árin ekki getað endurnýjað tölvubúnað eins og við sannarlega þyrftum og við höfum dregið úr innkaupum á öllum sviðum skólastarfsins. Og það verður að segja það eins og er að þess sér stað í skólastarfinu. Meðalaldur tölvubúnaðar skólans er níu ár. Þörfin fyrir nýjan tölvubúnað er orðinn svo æpandi að við þyrftum samkvæmt úttekt að kaupa 130 nýjar tölvur í skólann til þess að standast tímans tönn. Sumar tölvurnar ráða ekki lengur við að „keyra“ einföldustu myndbönd af netinu í kennslu. Í hvaða stöðu er skóli sem stendur frammi fyrir slíku? Rímar þetta við stefnu stjórnvalda um upplýsingalæsi og að nemendur nýti sér tölvutæknina? Miðað við stöðu skólans núna verður ekki séð að við getum á næstunni farið í kaup á þessum nauðsynlega tölvubúnaði. Við verðum öll að gera okkur grein fyrir því að svona getur þetta ekki gengið öllu lengur og þegar staðan er farin að bitna á námi nemenda finnst mér að þar með séum við komin algjörlega upp að vegg.“

Engin rekstraróráðsía í gangi
Sigríður Huld segir að skilaboð ráðuneytisins séu þau að skólinn fái ekki krónu í rekstrarfé frá ríkinu fyrr en í sumar. „Launagreiðslur skila sér, svo því sé haldið til haga, en annað rekstrarfé skilar sér ekki. Þannig er staðan. Við þurfum m.a. að greiða fyrir rafmagn og hita, aðgang að Innu og allskyns aðföng sem okkur eru nauðsynleg í okkar kennslu, ekki síst á verknámsbrautunum. Ég veit að brautarstjórarnir hjá okkur eru mjög hagsýnir í öllum innkaupum og fá góða afslætti. Ég hafna því með öllu að hér sé einhver fjárhagsleg óráðsía, það er einfaldlega ekki svo, þvert á móti. Við höfum verið að skera okkur inn að beini í mörg undanfarin ár, en það dugar bara ekki til. Það er einfaldlega vitlaust gefið af hendi ráðuneytisins. Það hafa orðið launahækkanir sem hafa verið mjög jákvæðar fyrir kennara og aðra starfsmenn skólans og kjarabætur kennara voru fyrir löngu tímabærar. Ef ríkið hins vegar semur um launahækkanir ætti það að vera sjálfsagt mál að því fylgi að viðkomandi ríkisstofnunum sé gert kleift að greiða umsamdar hækkanir. Það er hins vegar ekki svo. Auk taxtahækkana breyttist vinnumat kennara og ég er ekki viss um að ríkið hafi reiknað til fulls þessar vinnumatsbreytingar í nýjum kjarasamningum við kennara. Í okkar skóla sjáum við svo ekki verður um villst að fjárframlög frá ríkinu hafa ekki fylgt þessum breytingum á vinnumati og það er okkur auðvitað mjög dýrt. Heildarumsetning VMA er yfir milljarður króna og hvert prósent til eða frá er því um tíu milljónir króna og fyrir tíu milljónir gætum við t. d. keypt ófáar tölvur. Þessi innbyggða villa í reiknimódeli ráðuneytisins, sem við teljum að sé sannarlega fyrir hendi, segir fljótt til sín í rekstri skóla eins og okkar, sem er í hópi stærstu framhaldsskóla landsins. Svokallaður kennsluafsláttur er hjá kennurum og í okkar skóla, þar sem meðalaldur kennara er orðinn frekar hár, þurfum við að spara sem jafngildir tæplega sex stöðugildum vegna þess að við fáum þetta ekki bætt í greiðslum til skólans. Og það er heldur ekki sérframlag frá ríkinu fyrir séreignasparnaði starfsmanna skólans.“

Samstarf framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra í uppnámi
Sigríður Huld segist vera búin að vekja athygli þingmanna Norðausturkjördæmis og fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á stöðunni og sömuleiðis hafi hún upplýst bæjarráð Akureyrar um stöðuna. „Ég taldi mér skylt að upplýsa bæjarráð um málið vegna þess að þegar það varð niðurstaða yfirvalda menntamála að fara í samvinnu framhaldsskólanna fimm á Norðurlandi – VMA, MA, Framhaldsskólans á Laugum, Framhaldsskólans á Húsavík og Menntaskólans á Tröllaskaga – var það með aðkomu sveitarfélaganna og ég vildi upplýsa bæjaryfirvöld hér á Akureyri um að verkefnið væri í uppnámi. Af þeirri einföldu ástæðu að ein af forsendum samstarfs skólanna var sú að Menntaskólinn á Akureyri myndi færa til sitt skólaár til samræmis við hina fjóra skólans. Eins og fram kemur á heimasíðu MA liggur nú fyrir ákvörðun stjórnenda skólans um að það verði ekki gert næsta haust vegna þess að ríkið er ekki tilbúið að veita honum þá viðbótarfjármuni sem þarf til þess að geta farið í þessar breytingar, m.a. með styttingu sumarfrís kennara skólans. Þetta samstarf framhaldsskólanna fimm hér á svæðinu er því í uppnámi og það er okkur mikil vonbrigði því við vorum komin af stað í þessari vinnu.“

Óskum um fundi ekki svarað
Sigríður Huld segist ítrekað hafa óskað eftir fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stöðuna en erindi hennar hafi ekki verið svarað. „Það er mér ekki ljúft að fara þá leið sem ég er hér að gera, að upplýsa um stöðuna, en ég tel mér vera það skylt gagnvart starfsfólki skólans, nemendum og foreldrum þeirra og öllu okkar nærsamfélagi. Ég vona sannarlega að það muni eitthvað gerast til þess að bæta úr þessari óásættanlegu stöðu en staðan verður bara verri og verri eftir því sem dagarnir líða. Það að eiga ekki fyrir reikningum er staða sem við  höfum aldrei upplifað áður í þessum skóla og við getum ekki sagt með neinni vissu hvenær við getum borgað þá. Ég er á mínu tíunda starfsári sem stjórnandi við þennan skóla og ég man vart eftir fundi með fulltrúum ráðuneytisins sem ekki hefur verið farið fram á endurskoðun á því reiknilíkani sem stuðst er við í fjárframlögum til framhaldsskólanna. Lítið hefur þokast í rétta átt.“

Yfir 90% í laun og rekstur húsnæðis
Það segir sína sögu að yfir 90% af rekstri skólans eru laun og rekstur húsnæðis og það segir Sigríður Huld að sé í raun grunnur þess hvernig rekstrarstaða skólans er. „Þau tæplega 10% sem út af standa eru allir aðrir rekstrarliðir. Nemendur greiða efnisgjöld – að hámarki 25 þúsund krónur á nemanda á önn og þessi upphæð hefur verið óbreytt í hartnær áratug. Á sama tíma hafa verið miklar kostnaðarhækkanir, sem kunnugt er. Það er á ábyrgð okkar stjórnenda skólanna að reka þá innan fjárheimilda, en vandamálið er að við erum ekki að fá það fjármagn sem við þurfum til þess að reka skólana í algjöru lágmarki. Það er á ábyrgð stjórnvalda að fjármagna skólana. Skóli eins og VMA, sem lengstaf hefur verið í góðum rekstri, er nú kominn í mínus vegna þess að ríkisframlög til hans hafa ekki fylgt auknum útgjöldum. Og þetta á við um marga aðra framhaldsskóla í landinu og ég sakna þess að heyra ekki meira frá fleiri kollegum mínum um þessa grafalvarlegu stöðu. Því miður er það svo að ef stjórnendur skólanna þurfa að eyða öllum sínum kröftum í þessa hluti, frá degi til dags, þá fá þeir einfaldlega nóg og láta sig hverfa af þessum vettvangi. Umræða um þessa hluti er að sjálfsögðu ekki jákvæð fyrir skólana og heldur ekki fyrir nemendur og foreldra. Það er ekki jákvætt fyrir foreldra að heyra að skólinn sem barnið þeirra er í sé í fjárhagskröggum og geti mögulega ekki veitt fullnægjandi þjónustu. Við höfum boðið upp á sálfræðiþjónustu hér við skólann og greitt fyrir hana af rekstrarfé skólans. Við teljum að þetta sé nauðsynleg þjónusta og skili sér í betri líðan nemenda og þar með betri námsárangri þeirra, auk þess  sem líkurnar á brottfalli minnki. En eins og staðan er núna er VMA nauðugur sá kostur að skera í burtu alla slíka þjónustu, sem við þó teljum nauðsynlega og hefur skilað okkur ótvírætt gríðarlegum árangri. Er það stefna stjórnvalda í landinu að í framhaldsskólum verði fyrst og fremst íslenska, enska og stærðfræði í stórum námshópum og fjölbreytni í skólastarfi og námsvali verði ýtt til hliðar? Er það stefna stjórnvalda að koma ekki til móts við sérþarfir nemenda? Það kostar peninga. Svelt ríkisstofnun hefur fengið nýja merkingu fyrir mér eftir reynslu síðustu daga og vikna.  Á endanum bitnar þetta á nemendum. Viljum við það? Fyrir okkur í VMA væri trúlega einfaldast að leggja niður brautir í verklegu námi og fækka minni stúdentsprófsbrautum. En er það það sem samfélagið kallar eftir? Við teljum og vitum að hlutverk Verkmenntaskólans á Akureyri í okkar nærsamfélagi er ótvírætt mikið og okkur ber skylda til þess að bjóða upp á fjölbreytt nám. Sem dæmi er vöntun á fólki í byggingargreinum, málmiðnaðargreinum og ferðaþjónustu. Við erum að mennta fólk á öllum þessum sviðum. Og bóknámsnemendur okkar skila sér vel í háskólanám. Stúdentar úr VMA er einn fjölmennasti stúdentahópurinn í námi við Háskólann á Akureyri,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir að lokum.