Fara í efni

"Kóngur" kitlar bragðlaukana

Ananasinn pressaður í nýja lögun af
Ananasinn pressaður í nýja lögun af "Kóngi".

Í síðustu viku var sagt frá því hér á heimasíðunni að nemendur í áfanga í frumkvöðlafræði hefðu stofnað fyrirtæki um markaðssetningu og sölu á „Kóngi“ – heilsusamlegum ávaxtadrykk. Að vonum fóru nemendur varlega í upphafi með framleiðslumagnið á meðan þeir ekki vissu hver viðbrögð markaðarins yrðu. En í ljósi góðrar viðbragða og að fyrsta lögun drykkjarins er á þrotum var ákveðið að framleiða meira og því unnu nemendur í gær að því hörðum höndum að framleiða í nýja lögun af „Kóngi“ og verður drykkurinn að óbreyttu kominn á markaðinn í dag, miðvikudag.

Þessir frumkvöðlar í framleiðslu á heilsudrykknum „Kóngi“ unnu að því hörðum höndum í gær í eldhúsi matvælabrautar að pressa safa úr ávöxtunum sem notaður er í drykkinn og þurfti að vonum fleiri tugi kílóa af áxöxtum í á að giska 100 flöskur sem áætlað var að framleiða til viðbótar. Drykkurinn er búinn til úr hreinum safa úr ananas, sítrónum, appelsínum og trönuberjum og einnig er notað í hann krydd, t.d. kanill, sellerí og mynta.  Þegar búið var að kreista safann úr ávöxtunum og krydda eftir kúnstarinnar reglum var farið með hráefnið til átöppunar hjá Kalda á Árskógsströnd.

„Kóngur“ verður áfram til sölu í VMA og einnig verður hann seldur á Glerártorgi eftir hádegi nk. föstudag, 21. nóvember.